Fótbolti

Sverrir Ingi valinn bestur í nóvember

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi er leikmaður nóvember mánaðar hjá PAOK.
Sverrir Ingi er leikmaður nóvember mánaðar hjá PAOK. Vísir/PAOK

Landsliðsmiðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason hefur verið valinn leikmaður mánaðarsins hjá gríska félaginu PAOK. Alls fékk Sverrir Ingi 67% atkvæða.

Hinn 26 ára gamli Sverrir gekk til liðs við PAOK í janúar og átti erfitt uppdráttar framan af ári. Meðal annars fékk hann frí með íslenska landsliðinu til að  reyna komast í byrjunarlið gríska liðsins. Sú fórn virðist loks hafa gengið upp en Sverrir hefur verið fastamaður í hjarta varnarinnar undanfarnar vikur og var á endanum valinn leikmaður nóvember mánaðar af stuðningsmönnum félagsins.

Miðvörðurinn stóri og stæðilegi hefur verið í byrjunarliði PAOK í síðustu níu leikjum. Liðið hefur haldið hreinu í sjö þeirra og þá hefur Sverrir gert sér lítið fyrir og skorað tvö mörk. Haldi Sverrir áfram á sömu braut er ljóst að landsliðsþjálfarar Íslands munu eiga erfitt með að velja miðverði fyrir leiki Íslands gegn Rúmeníu í mars á næsta ári en liðin mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 sem fer fram næsta sumar.

PAOK er jafnt Olympiakos á toppi grísku úrvalsdeildarinnar með 37 stig þegar 15 umferðum er lokið.

Sverrir Ingi hefur spilað 29 A-landsleiki og skorða í þeim þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×