Fótbolti

Ekki enn búnir að vinna deildarleik án Arons Einars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson fagnar öðru marka sinna.
Aron Einar Gunnarsson fagnar öðru marka sinna. Getty/Simon Holmes

Ef við Íslendingar höldum að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sé mikilvægur fyrir íslenska karlandsliðið í knattspyrnu hvað er þá hægt að segja um mikilvægi hans fyrir Al Arabi liðið í Katar.

Aron Einar Gunnarsson er enn að vinna sig til baka eftir ökklameiðslin sem hann varð fyrir í byrjun október. Aron Einar missti af fjórum síðustu leikjum Íslands í undankeppni EM 2020 vegna þeirra og hefur ekki spilað með Al Arabi frá 4. október síðastliðnum.

Það er mjög athyglisvert að skoða nánar hvernig liði Al Arabi hefur gengið í deildinni í Katar síðan að liðið missti Aron Einar Gunnarsson í meiðsli.

Al Arabi vann 3-1 sigur á Al Khor í síðasta deildarleik Arons Einars og sá sigur skilaði liðinu upp í annað sæti deildarinnar.

Al Arabi var þá komið með þrettán stig í hús af fimmtán mögulegum eftir þrjá sigurleiki í röð og fjóra sigurleiki í fyrstu fimm umferðunum.  Aron Einar hafði sjálfur skorað tvö mörk í þessum fimm leikjum.

Eftir að Aron datt út hefur gengi Al Arabi hreinlega hrunið. Liðið hefur enn ekki unnið leik í deildinni síðan þá og aðeins fengið samtals tvö stig af fimmtán mögulegum.

Liðið sem skoraði fjórtán mörk í fyrstu fimm leikjunum hefur aðeins skorað fimm mörk í leikjunum án Arons. Hér munar næstum því tveimur heilum mörkum í leik.

Al Arabi er nú í fimmta sæti deildarinnar en nú eru aðeins þrjú stig niður í níunda sætið. Það eru aftur á móti tíu stig í annað sætið þar sem Al Arabi sat fyrir tveimur mánuðum síðan.

Hér fyrir neðan má sjá þennan ótrúlega mun á gengi Al Arabi með og án íslenska landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar.

Al Arabi með Aron Einar í Stjörnudeild Katar 2019

13 stig af 15 mögulegum (87%)

+9 í markatölu (14-5)

Al Arabi án Arons Einars í Stjörnudeild Katar 2019

2 stig af 15 mögulegum (13%)

-3 í markatölu (5-8)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×