Fótbolti

Aron Einar, Birkir og Heimir fá enn og aftur að glíma við Mandzukic

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mandzukic fær rauða spjaldið í leik Króatíu og Íslands í Zagreb í umspili um sæti á HM haustið 2013.
Mandzukic fær rauða spjaldið í leik Króatíu og Íslands í Zagreb í umspili um sæti á HM haustið 2013. vísir/getty

Króatíski framherjinn Mario Mandzukic er genginn í raðir Al-Duhail, toppliðs katörsku úrvalsdeildarinnar, frá Juventus.

Mandzukic lék með Juventus í fjögur og hálft ár og varð fjórum sinnum ítalskur meistari og þrisvar sinnum bikarmeistari með liðinu.

Hinn 33 ára Mandzukic hefur ekkert spilað með Juventus á tímabilinu og fékk að fara frítt til Al-Duhail. Þjálfari liðsins er Rui Faria, fyrrverandi aðstoðarmaður José Mourinho.

Í Katar fær Mandzukic enn og aftur að glíma við íslensku landsliðsmennina Aron Einar Gunnarsson og Birki Bjarnason sem leika undir stjórn Heimis Hallgrímssonar hjá Al Arabi.

Ísland og Króatía hafa oft mæst á síðustu árum, m.a. í umspili um sæti á HM 2014. Í seinni leiknum í Zagreb fékk Mandzukic rauða spjaldið fyrir brot á Jóhanni Berg Guðmundssyni. Það kom ekki að sök því Króatar unnu 2-0 sigur og tryggðu sér farseðilinn á HM.

Mandzukic er einn fárra leikmanna sem hefur bæði skorað í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og úrslitaleik HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×