Erlent

Birtist úr þokunni og þeyttist inn á slysstað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi frá vettvangi slyssins. Hér sjást viðbragðsaðilar forða sér frá flutningabílnum.
Skjáskot úr myndbandi frá vettvangi slyssins. Hér sjást viðbragðsaðilar forða sér frá flutningabílnum. Skjáskot/twitter

Mildi þykir að ekki fór verr þegar ökumaður missti stjórn á flutningabíl sínum í Texasríki í Bandaríkjunum á föstudag og ók inn á vettvang umferðarslyss. Myndband af atvikinu hefur vakið töluverða athygli.

Atburðarásinni er lýst í frétt CNN. Þar segir að viðbragðsaðilar hafi verið við rannsókn á árekstri tveggja bíla við hraðbraut númer 84 í Lubbock-sýslu í Texas þegar flutningabíll, þó ekki sá sami og náðist á myndband, kom akandi, rann til og rakst á bílana á slysstað. Fleiri bílar óku í kjölfarið inn á vettvang slyssins og úr varð margra bíla árekstur.

Skyggni var afar slæmt á svæðinu vegna þoku, líkt og sést í myndskeiði myndatökumanns sjónvarpsstöðvarinnar KCBD sem var á staðnum til að mynda bílana sem lent höfðu í árekstrinum. Í myndbandi hans sést svo annar flutningabíll birtast undan þokunni og þeytast inn á slysstaðinn.

Í frétt CNN af atvikinu segir að bíllinn hafi rekist á bæði lögreglumann og pallbíl áður en hann staðnæmdist í nærliggjandi skurði. Lögreglumaðurinn og ökumaður pallbílsins voru fluttir slasaðir á sjúkrahús en eru ekki taldir lífshættulega slasaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×