Erlent

Fimm særðir eftir sveðju­á­rás á heimili rabbína í New York

Atli Ísleifsson skrifar
Strangtrúaðir gyðingar eru fjölmennir í bænum Monsey.
Strangtrúaðir gyðingar eru fjölmennir í bænum Monsey. AP

Fimm manns hið minnsta særðust eftir sveðjuárás manns á heimili rabbína í bænum Monsey, norður af New York, í nótt. Gestir höfðu safnast saman til að fagna ljósahátíðinni Hanukkah þegar árásarmaðurinn ruddist inn.

Árásin átti sér stað klukkan 22 að staðartíma, um þrjú að íslenskum tíma. Heimili rabbíans er að finns skammt frá bænahúsi gyðinga.

Bandarískir fjölmiðlar segja árásarmanninn hafa mætt með sveðju og sært fjölda fólks áður en hann yfirgaf staðinn á bíl. Búið er að handtaka mann sem grunaður er um árásina.

Reuters segir frá því að ástand tveggja hinna særðu sé alvarlegt, en annar þeirra á að hafa verið stunginn sex sinnum.

Ekki liggur fyrir um ástæður árásarinnar, en strangtrúaðir gyðingar eru fjölmennir í bænum Monsey.

Nokkur fjöldi árása hafa beinst gegn gyðingum í Bandaríkjunum að undanförnu. 11. desember síðastliðinn létust sex manns, þar af tveir árásarmenn, eftir árás á fólk í matvöruverslun fyrir gyðinga í Jersey City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×