Innlent

Björgunarsveitir bíða átekta

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björgunarsveitir lögðu af stað með bílana frá Reykjavík og Akranesi í gærkvöldi.
Björgunarsveitir lögðu af stað með bílana frá Reykjavík og Akranesi í gærkvöldi. Mynd/landsbjörg

Staðan á björgunarsveitunum nú í morgunsárið er nokkuð góð, að sögn Davíðs Más Björgvinssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Engin verkefni tengd veðri hafa borist sveitunum í nótt eða það sem af er morgni, að undanskildum einum bíl sem festist í snjó á Vestfjörðum upp úr miðnætti.

Landsmenn búa sig nú undir aftakaveður sem ganga á yfir landið í dag. Appelsínugul viðvörun er í gildi í öllum landshlutum í dag og á Ströndum og Norðurlandi vestra mun rauð viðvörun taka gildi frá klukkan fimm síðdegis.

Þá segir Davíð að mjög vel hafi gengið að ferja þrjá snjóbíla norður en björgunarsveitir lögðu af stað með bílana frá Reykjavík og Akranesi í gærkvöldi. Bílarnir eru nú staðsettir á Hvammstanga, Skagaströnd og í Hrútafirði.

„Það fór mannskapur með bílunum af suðvesturhorninu og þeir eru bara til taks, í viðbragðsstöðu og bíða átekta,“ segir Davíð.

„Að öðru leyti er bara rólegt. Það eru allir vel undirbúnir, gærdagurinn var nýttur vel.“

Búist er við miklum röskunum á þjónustu víða á landinu í dag. Vegalokanir eru áætlaðar víða á landinu og millilandaflugi hefur í mörgum tilvikum verið aflýst síðdegis. Þá fellur skólahald víða niður eða verður skert þegar líða tekur á daginn. Fylgjast má með aftakaveðrinu í veðurvakt Vísis í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×