Fótbolti

Megan Rapinoe á þriðju forsíðu SI á árinu eftir sögulegt val og nú með sleggju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe á forsíðu SI.
Megan Rapinoe á forsíðu SI. Skjámynd/Forsíða Sports Illustrated.

Megan Rapinoe varð aðeins fjórða konan í sögunni til að vera kosinn íþróttapersóna ársins hjá bandaríska íþróttatímaritinu Sports Illustrated.

Fyrir vikið er Megan Rapinoe á forsíðu Sports Illustrated en þetta er þriðja sinn á árinu sem hún nær því.

Megan Rapinoe hefur verið óhrædd að berjast fyrir betri kjörum hjá knattspyrnukonum og um leið meiri virðingu fyrir kvennafótboltanum.

Megan Rapinoe er heimsfræg fyrir þá baráttu og þá skiptir ekki máli þótt hún sé að karpa við forráðamenn bandaríska knattspyrnusambandsins eða sjálfan Bandaríkjaforseta Donald Trump.

Það sem gerir þetta um leið enn merkilegra er á sama tíma er Megan Rapinoe algjörlega óstöðvandi inn á vellinum.

Á heimsmeistaramótinu í Frakklandi síðasta sumar var hún ekki aðeins heimsmeistari heldur einnig markadrottning og besti leikmaður keppninnar.

Hún hefur haldið áfram að safna að sér viðurkenningum síðan þá en hún fékk meðal annars Gullboltann á dögunum og var auk þess kosin knattspyrnukona ársins hjá FIFA.



Það þarf því ekki að koma mörgum á óvart að hún hafi þótt skarað fram úr hjá íþróttatímaritinu Sports Illustrated. Annar ritstjóri blaðsins sagði þetta hafi verið auðvelda ákvörðun þrátt fyrir að margir íþróttamenn og konur hafi staðið sig vel á árinu 2019.

Forsíðumyndin af Megan er líka táknræn þar sem hún er með sleggju í hönd enda verið dugleg að brjóta niður múra á sinni ævi.

Hinar þrjár sem hafa náð því að verða Íþróttapersóna ársins hjá SI eru tenniskonurnar Chris Evert (1976) og Serena Williams (2015) sem og hlauparinn Mary Decker (1983). Verðlaun hafi verið veitt í 66 ár.

Hér fyrir neðan má sjá aðeins meira um verðlaunin sem Megan Rapinoe fékk hjá íþróttatímaritinu Sports Illustrated.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×