Viðskipti innlent

Stýrivextir haldast óbreyttir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stýrivextir voru síðast lækkaðir um 0,25 prósentur í byrjun nóvember.
Stýrivextir voru síðast lækkaðir um 0,25 prósentur í byrjun nóvember. Vísir/vilhelm

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 3%.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum hafi hagvöxtur verið 0,2% á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta sé aðeins meiri vöxtur en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í nóvember en í meginatriðum hafi efnahagsþróunin það sem af er ári verið í samræmi við nóvemberspá bankans.

Verðbólga mældist jafnframt 2,7% í nóvember og hefur, eins og undirliggjandi verðbólga, hjaðnað milli mánaða. Verðbólguhorfur hafi lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar og verðbólguvæntingar við markmið miðað við flesta mælikvarða.

„Taumhald peningastefnunnar hefur því lítið breyst milli funda. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar,“ segir í tilkynningu peningastefnunefndar.

Stýrivextir voru síðast lækkaðir um 0,25 prósentur í byrjun nóvember og meginvextir urðu því 3%, þeir lægstu frá upphafi.



Kynningarfundur hefst klukkan 10 í Seðlabankanum þar sem Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri, gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar og svara spurningum fundargesta. Sýnt verður beint frá fundinum á Vísi.


Tengdar fréttir

Stýrivextir halda áfram að lækka

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3%.

Geta lent á vegg við endurfjármögnun

Skert samkeppnishæfni bankanna dregur úr áhrifum vaxtalækkana Seðlabankans. Ný útlán til fyrirtækja hafa dregist saman á árinu. Bitnar á fyrirtækjum sem hafa ekki aðra valkosti við fjármögnun en bankalán. Fyrirtækjalánasafn Arion minnkar hratt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×