Fótbolti

Klopp „ekki rétta manneskjan“ til að ræða mannréttindamál Katar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jurgen Klopp
Jurgen Klopp vísir/getty

Jurgen Klopp segist ekki vera rétta manneskjan til þess að ræða við um mannréttindamál í Katar, en Liverpool er í Katar um þessar mundir að taka þátt í HM félagsliða.

Margir hafa lýst yfir áhyggjum og mótmælum gegn því að halda HM félagsliða og HM landsliða í Katar vegna efasemda um mannréttindamál Katar, meðal annars í ljósi afstöðu stjórnar landsins gegn samkynhneigð og réttindum innflytjenda.

„Skipuleggjendur þurfa að hugsa um þessi mál, ekki íþróttamennirnir,“ sagði Klopp þegar hann var spurður út í málið á blaðamannafundi í Katar.

„Þegar íþróttamenn þurfa að ákveða hvort þeir vilji taka þátt í keppni þá er eitthvað ekki í lagi.“

Mikið hefur verið ritað og rætt um ástand mála í Katra, en meðal annars kom fram í skýrslu frá 2013 að yfir 1200 verkamenn frá Nepal og Indlandi hefðu látið lífið við byggingavinnu í kringum HM 2022.

„Ég er með skoðun á fótbolta, en þessi mál eru mjög alvarleg og mér finnst að svörin ættu að koma frá fólki sem vita meira um málið,“ sagði Klopp.

„Ég þarf að hafa áhrif í fótboltanum en ekki í pólitík. Hvað sem ég segði þá myndi það ekki hjálpa, bara búa til aðra fyrirsögn. Það er gott að þið spyrjið að þessu en ég er ekki manneskjan sem á að svara þessu.“

Liverpool mætir mexíkóska liðinu Monterrey í undanúrslitum HM félagsliða í Katar annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×