Fótbolti

Óvænt val hjá Maradona á besta leikmanni allra tíma

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Maradona ásamt barnabarni sínu, Benjamin Aguero, sem er sonur Sergio Aguero og dóttur Maradona.
Maradona ásamt barnabarni sínu, Benjamin Aguero, sem er sonur Sergio Aguero og dóttur Maradona. vísir/getty

Umræðan um besta knattspyrnumann allra tíma er alltaf reglulega á dagskrá og einn sá besti allra tíma, Diego Maradona, hefur nú greint frá því hver sé sá besti allra tíma að hans mati.

„Ég tel að Alfredo Di Stefano sé sá besti. Hann var betri en allir. Meira að segja betri en ég,“ sagði Maradona óvenju hógvær en oftar en en ekki hefur verið talað um hann eða Pelé sem þann besta. Þar til Messi og Ronaldo stigu inn á sjónarsviðið.

Maradona hefur oft skotið á Pelé í þessari umræðu og er ekkert hættur því.

„Pelé vildi aldrei viðurkenna hversu góður Di Stefano var. Vinir Pelé bjuggu til þessa ímynd af honum að hann væri sá besti. Meira ruglið. Ég var meira að segja kosinn sá besti í Ríó, á hans heimavelli.“

Fyrir þá sem ekki þekkja til Di Stefano þá er hann Argentínumaður sem átti sín bestu ár hjá Real Madrid. Þar spilaði hann frá 1953 til 1964 og skoraði þá 216 mörk í 282 leikjum fyrir félagið. Hann lést árið 2014, 88 ára að aldri.

Maradona segir að eftirminnilegustu treyjuskiptin hafi verið við Ruud Gullit og Marco van Basten er þeir spiluðu allir á Ítalíu. Besti liðsfélaginn segir Maradona að hafi verið Brasilíumaðurinn Careca en þeir spiluðu saman hjá Napoli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×