Viðskipti innlent

Starfsmenn Play búnir að fá borgað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vísir/vilhelm

Aðstandendur flugfélagsins Play eru búin að greiða starfsmönnum sínum laun fyrir nóvembermánuð. Mannlíf greindi fyrst frá en María Margrét Jóhannsdóttir samskiptafulltrúi Play staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Greint var frá því í byrjun mánaðar að Play hefði ekki getað greitt starfsfólki sínu laun fyrir nóvember. María sagði í samtali við Vísi á sínum tíma að til stæði að greiða laun hið fyrsta.

María segir í samtali við Vísi að laun og öll launatengd gjöld fyrir nóvembermánuð hafi nú verið greidd, sem og desemberuppbót. Félagið hafi ekki skuldað laun fyrir aðra mánuði en í kringum 25 til 30 starfsmenn eru á launaskrá.

Á lokametrunum

Komið hefur fram að fjármögnum Play hafi gengið erfiðlega. Markaðurinn greindi frá því í byrjun mánaðar að forsvarsmenn Play hefðu boðist til að minnka hlutdeild sína í félaginu í þrjátíu prósent á móti sjötíu prósent eignarhlut fjárfesta. Þá var ákveðið að fresta sölu á fyrstu flugmiðum félagsins, sem ráðgert var að færu í sölu í síðasta mánuði.

María segir aðspurð að vinnan við að koma Play á flug gangi mjög vel.

„Þetta er á lokametrunum. Þetta næst örugglega ekki fyrir jól að minnsta kosti en við vonumst til að byrja í janúar.“


Tengdar fréttir

Bjóðast til að minnka hlut sinn í Play

Stjórnendur og stofnendur Play, hins nýstofnaða lággjaldaflugfélags, bjóðast til að minnka hlutdeild sína í félaginu í þrjátíu prósent á móti sjötíu prósent eignarhlut fjárfesta.

Play gat ekki greitt laun um mánaðamótin

Forsvarsmenn lággjaldaflugfélagsins Play hafa ekki getað greitt starfsfólki sínu laun fyrir nóvembermánuð. Upplýsingafulltrúi Play segir starfsmenn sína stöðunni skilning og til standi að greiða laun hið fyrsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×