Viðskipti innlent

Ölgerðin biðst velvirðingar hafi starfsmenn upplifað samræmingaraðgerðir sem afarkosti

Andri Eysteinsson skrifar
Ölgerðin hefur gefið út yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunar.
Ölgerðin hefur gefið út yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunar. Vísir/Vilhelm
„Hafi starfsmenn Ölgerðarinnar upplifað aðferðir til sameiningar sem afarkosti, biðst Ölgerðin velvirðingar á því,“ segir í yfirlýsingu Ölgerðarinnar í kjölfar umfjöllunar um hótanir forsvarsmanna Ölgerðarinnar gegn starfsmönnum fyrirtækisins sem eru innan verkalýðsfélagsins VR.

Í yfirlýsingunni segir að málið snúist um starfsmenn Ölgerðarinnar sem vinni í sömu deildum en séu í ólíkum stéttarfélögum. Unnið hafi verið að samræmingu, þannig að starfsmenn í sömu deildum njóti allir sömu réttinda og skylda. Hafi starfsmenn upplifað þær aðgerðir sem afarkosti biðjist Ölgerðin velvirðingar á því.

Samkvæmt heimildum Vísis boðaði Ölgerðin bílstjóra, starfsmenn á lager og verksmiðju á fund í síðustu viku. Var starfsmönnum þar boðnir þrír kostir, ganga úr VR og í Eflingu, halda sér í VR en vinna samkvæmt Eflingu eða vera sagt upp frá og með síðustu mánaðamótum með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Sjá einnig: Starfsfólki Ölgerðarinnar hótað uppsögn ef það gefur ekki eftir rétt til styttri vinnuviku

Í yfirlýsingu Ölgerðarinnar segir að fyrirtækið virði alla kjarasamninga, réttindi og skyldur starfsmanna og harmi rangfærslur sem birst hafa. Í fréttaflutningi af málinu hafi verið tekið fram að starfsmönnum hafi verið boðið að afsala sér rétti til styttri vinnuviku, það sé rangt. Starfsmenn hafi þegar unnið sér inn þau réttindi og fengið greitt í samræmi við það um nokkurra ára skeið. Ekki hafi staðið til að gera breytingar á því.



Yfirlýsingu Ölgerðarinnar í heild sinni má sjá hér að neðan:

Vegna fréttaflutnings af málefnum starfsfólks Ölgerðarinnar, er rétt að eftirfarandi komi fram.

Ölgerðin virðir alla kjarasamninga, réttindi og skyldur sinna starfsmanna og harmar rangfærslur þar um sem birst hafa.

Málið snýst um starfsmenn fyrirtækisins sem vinna í sömu deildum en eru í ólíkum stéttarfélögum. Unnið hefur verið að samræmingu, þannig að starfsmenn í sömu deildum séu allir að njóta sömu réttinda og skylda. Hafi starfsmenn upplifað þær aðferðir til samræmingar sem afarkosti, biðst Ölgerðin velvirðingar á því.

Í fréttaflutningi af málinu hefur verið tekið fram að starfsmönnum hafi verið boðið að afsala sér rétti til styttri vinnuviku. Það er rangt. Starfsmenn hafa þegar unnið sér slík réttindi inn og fengið greitt í samræmi við það um nokkurra ára skeið og hefur aldrei staðið til að gera breytingar á því.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×