Erlent

Stöðvuðu háþróaðan eldflaugabúnað á leið til Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn í stjórnarher Jemen.
Hermenn í stjórnarher Jemen. AP/Hani Mohammed
Áhöfn bandarísks herskips lagði nýverið hald á búnað sem talinn er vera úr eldflaugum frá Íran. Sjóliðar fóru um borð í smátt skip á Ómanflóa í síðustu viku og fundu þar eldflaugahlutana. Yfirvöld Bandaríkjanna telja að smygla hafi átt búnaðinum frá Íran til uppreisnarmanna Húta í Jemen.

Bandaríkin hafa reglulega stöðvað sendingar vopna frá Íran til Húta. Þessi sending er þó sögð óhefðbundin þar sem búnaðurinn sem um ræðir sé verulega þróaður. Áhöfn skipsins var færð í hendur Strandgæslu Jemen og búnaðurinn er í haldi Bandaríkjanna.

Írönum er óheimilt að flytja vopna til annarra ríkja, samkvæmt ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og þar að auki segir önnur ályktun til um að ólöglegt sé að útvega Hútum vopn. Íranar hafa þó ítrekað verið sakaðir um að flytja gífurlegt magn vopna til hópa víðsvegar um Mið-Austurlönd.

Átökin í Jemen eru að miklu leyti á milli Íran og Sádi-Arabíu sem styðja mismunandi fylkingar.

Samkvæmt Reuters hafa Hútar framleitt töluvert af eldflaugum í Jemen með hjálp erlendis frá varðandi sérfræðiþekkingu sem til þarf og eldflaugabúnað frá Íran. Þar að auki hafa þeir lagt hald á fjölda vopna frá stjórnarher Jemen.



Sádar sögðu frá því í sumar að Hútar hefðu skotið minnst 226 eldflaugum og 710.606 sprengjum að Sádi-Arabíu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×