Innlent

Björgunar­sveitar­menn lagðir af stað með þrjá snjó­bíla norður í land

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Snjóbíll björgunarsveitarinnar Ársæls í Reykjavík kominn á flutningabíl og tilbúinn að fara norður í land.
Snjóbíll björgunarsveitarinnar Ársæls í Reykjavík kominn á flutningabíl og tilbúinn að fara norður í land. landsbjörg

Núna upp úr klukkan ellefu í kvöld lögðu björgunarsveitarmenn af stað úr Reykjavík með tvo snjóbíla norður í land.

Annar bíllinn kemur frá björgunarsveitinni Ársæli og hinn frá Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Þriðji snjóbíllinn fer svo innan skamms af stað frá Björgunarfélagi Akraness.

Bílarnir verða til taks á morgun í ofsaveðrinu sem spáð er á Ströndum og Norðurlandi vestra.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, fara hátt í tuttugu björgunarsveitarmenn á vettvang með bílunum þremur. Einn bíllinn verður staðsettur á Hólmavík, annar í Hrútafirði og sá þriðji í Skagafirði.

„Hugmyndin er í raun og veru að ef það verður mjög snjóþungt þá er hægt að nota þá í  helstu neyðartilfellum ef það kemur eitthvað upp á, ef það þarf að flytja fólk,“ segir Davíð.

Hann segir björgunarsveitir um nánast allt land hafa verið að undirbúa sig í dag fyrir veðurofsann á morgun.

„Menn eru búnir að vera að undirbúa sig í dag og slípa saman verkferla af því það sem er kannski versta staðan sem gæti verið ef það verður mikið af verkefnum í einu sem koma. Það þarf að vinna hratt úr því og útdeila verkefnum,“ segir Davíð.

Klippa: Snjóbíll björgunarsveitarinnar Ársæls hífður upp á flutningabílinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×