Viðskipti innlent

Íbúðaverð heldur áfram að hækka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í Hagsjánni segir að verð á fjölbýli hækkaði um 0,8% milli september og október en á móti lækkaði verð á sérbýli um 0,5%.
Í Hagsjánni segir að verð á fjölbýli hækkaði um 0,8% milli september og október en á móti lækkaði verð á sérbýli um 0,5%. vísir/vilhelm
Íbúðaverð hækkaði um 0,5% milli mánaða í október og er þetta þriðji mánuðurinn í röð þar sem íbúðaverð hækkar meira en um hálft prósentustig milli mánaða.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans þar sem vísað er í nýbirtar tölur Þjóðskrár Íslands um fasteignaverð.

Í Hagsjánni segir að verð á fjölbýli hækkaði um 0,8% milli september og október en á móti lækkaði verð á sérbýli um 0,5%. Þó er það tekið fram að talsvert flökt geti verið á verðþróun milli einstakra mánaða, sérstaklega á sérbýli, og því sé ekki óalgengt að það mælist af og til lækkun á því milli mánaða.

„Þetta er þriðji mánuðurinn í röð þar sem vegin hækkun íbúðaverðs milli mánaða mælist meira en hálft prósentustig. Það er töluverð breyting frá því sem mældist á vor-og sumarmánuðum þegar fasteignarmarkaðurinn var nær kyrrstæður,“ segir í Hagsjánni en fyrr í vikunni var greint frá því að kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 56,1% í október 2019 miðað við október í fyrra.

Þá greindi Landsbankinn frá því í gær að fjöldi viðskipta í október væri sá mesti síðan í júní 2007.

„Það eru því ákveðin teikn á lofti um að spenna sé að aukast á húsnæðismarkaði og eftirspurnin að taka við sér sem að óbreyttu veldur þrýstingi á verðlag. Hækkanirnar eru þó mjög hóflegar enn sem komið er og markaðurinn því nokkuð stöðugur,“ segir í Hagsjá Landsbankans sem lesa má í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×