Erlent

Myndefni sýnir lögreglu bjarga átta ára stúlku frá mannræningja

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr upptökum af björgunaraðgerðum lögreglu sem dómstóll birti í gær. Lögreglumaður sést koma stúlkunni í öruggt skjól lengst til vinstri á mynd.
Skjáskot úr upptökum af björgunaraðgerðum lögreglu sem dómstóll birti í gær. Lögreglumaður sést koma stúlkunni í öruggt skjól lengst til vinstri á mynd. Mynd/Skjáskot
Dómstóll í Texas-ríki í Bandaríkjunum birti í gær myndefni sem sýnir fjölmennt lögreglulið bjarga ungri stúlku sem var rænt í maí síðastliðnum.

Stúlkunni, hinni átta ára Salem Sabatka, var rænt um hábjartan dag þann 18. maí síðastliðinn þar sem hún var á gangi með móður sinni í borginni Fort Worth í Texas. Hinn 51 árs Michael Webb var í síðustu viku dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir mannránið.

Michael Webb var dæmdur í lífstíðarfangelsi í síðustu viku fyrir að hafa rænt stúlkunni.Vísir/Ap
Upptökur úr öryggismyndavélum og myndavélum lögreglumanna sem birtar voru í gær varpa ljósi á björgunaraðgerðir lögreglu. Stúlkan fannst strax daginn eftir að henni var rænt.

Í myndböndunum sjást lögreglumenn brjóta niður hurð á hótelberbergi í Fort Worth, þar sem þeir töldu Webb halda til með stúlkunni. Því næst sjást þeir ryðjast inn í herbergið og skömmu síðar er Webb, kviknöktum, ýtt fram á gang þar sem hann er yfirbugaður.

Þá má einnig sjá og heyra þegar lögreglumaður finnur stúlkuna í herberginu, þar sem hún hafði falið sig í þvottakörfu, og hleypur með hana út. Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að þetta hafi verið í annað sinn sem lögregla leitaði í herbergi Webbs. Þá láðist lögreglumönnum að finna stúlkuna í þvottakörfunni.

Webb játaði í yfirheyrslu hjá bandarísku alríkislögreglunni, FBI, að hafa rænt stúlkunni. Þá játaði hann einnig að hafa hótað henni þegar hann heyrði í lögreglumönnum fyrir utan herbergið.

Webb var að endingu ákærður fyrir kynferðisbrot og mannrán. Hann var sakfelldur í málinu í september og að endingu dæmdur í lífstíðarfangelsi í síðustu viku, líkt og áður sagði.

Hér að neðan má sjá umfjöllun ABC-fréttastofunnar um málið auk hluta umrædds myndefnis sem dómstóllinn birti í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×