Erlent

Morðmál bandarískra pilta tekið fyrir í febrúar

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Mario Cerciello Rega var stunginn til bana í júlí.
Mario Cerciello Rega var stunginn til bana í júlí. Nordicphotos/Getty
Dómari í Róm hefur ákveðið að flýta málsmeðferð á morðmáli tveggja bandarískra ferðamanna og að málið verði tekið fyrir þann 26. febrúar næstkomandi.

Finnegan Elder og Gabriel Natale Hjorth eru sakaðir um að hafa stungið lögregluþjóninn Mario Cerciello Rega til bana þann 26. júlí síðastliðinn með stórum hermannahníf. Elder, sem er 19 ára gamall, hefur játað að hafa stungið Rega en Hjorth, 18 ára, neitar ábyrgð á verknaðinum.

Rega var við störf en óeinkennisklæddur þegar hann var drepinn. Hann var kallaður út til að bregðast við stuldi þar sem Elder og Hjorth höfðu stolið bakpoka. Reyndist þetta vera vegna fíkniefnaviðskipta sem fóru úrskeiðis. Piltarnir ætluðu að kaupa kókaín en fengu aspirín í staðinn. Þegar Rega, og félagi hans Andrea Varriale, reyndu að handtaka piltana streittust þeir á móti og stungu Rega. Voru þeir handteknir á hóteli skömmu eftir árásina og þar fannst hnífurinn, falinn í loftinu.

Lögmaður Elder segir að piltarnir hafi ekki vitað að Rega og Varriale væru lögreglumenn. Lögmaður Hjorth segir að hann hafi ekki vitað að Elder væri með hníf á sér. Fingraför beggja pilta fundust á lofti hótelherbergisins þar sem hnífurinn fannst.

Mikil reiði blossaði upp í Ítalíu í kjölfar málsins. Í Róm fóru fram mótmæli til þess að reyna að fá stjórnvöld til að auka öryggi lögreglumanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×