Viðskipti erlent

Lengsta MAX-þotan frumsýnd í kyrrþey hjá Boeing án fjölmiðla

Kristján Már Unnarsson skrifar
Boeing 737 MAX 10 komin úr verksmiðjunni. Starfsmenn fyrirtækisins voru þeir einu sem voru viðstaddir frumsýninguna.
Boeing 737 MAX 10 komin úr verksmiðjunni. Starfsmenn fyrirtækisins voru þeir einu sem voru viðstaddir frumsýninguna. Mynd/Boeing.
Fyrsta eintakinu af Boeing 737 MAX 10-þotunni var ýtt úr verksmiðju félagsins í Renton í Washington-ríki á föstudag. Þetta er lengsta þotan í 737-línunni og átti að verða krúnudjásnið í MAX-flotanum, og ein af þeim sem ráðamenn Icelandair höfðu lýst áhuga á. 

Venjulega þegar ný þota er frumsýnd er það gert með viðhöfn að viðstöddum stjórnmálamönnum og fjölmiðlum en að þessu sinni var eingöngu starfsmönnum Boeing boðið að fylgjast með. Fyrirtækið glímir enda við verstu krísu í eitthundrað ára sögu sinni með allar MAX 8 og MAX 9-þotur í flugbanni eftir tvö mannskæð flugslys. 

Það ríkir því óvissa um hvenær MAX 10-þotan fær að fljúga. Boeing segist þó stefna á fyrsta flug á næsta ári, að loknum ítarlegum prófunum á öllum kerfum vélarinnar og hreyflum á jörðu niðri. 

Flugvélaframleiðandinn segir nýju MAX 10-þotuna bjóða upp á lægsta verð á sæti á hvern floginn kílómetra af öllum þotum með einum gangi á milli sætaraða. Hún er 4,3 metrum lengri en MAX 8 og 1,65 metrum lengri en MAX 9 og mun geta tekið allt að 230 farþega, þrjátíu fleiri en MAX 8 og tíu fleiri en MAX 9. Boeing segist hafa fengið 550 pantanir í MAX 10-þotuna frá tuttugu flugfélögum. 

Icelandair keypti á sínum tíma sextán Boeing 737 MAX, þar af níu MAX 8 og sjö MAX 9. Ákvörðun um smíði MAX 10 hafði þá ekki verið tekin en ráðamenn Icelandair sögðust fyrir tveimur árum líta á hana sem áhugavert útspil, sem þeir myndu fylgjast náið með við ákvörðun um næstu flugvélakaup, eins og fram kom í þessari frétt Stöðvar 2 vorið 2017:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×