Erlent

Danir svipta ISIS-liða ríkis­borgara­rétti í fyrsta sinn

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. Getty
Ríkisstjórn Danmerkur hefur í fyrsta sinn ákveðið að svipta manni, sem gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin ISIS, dönskum ríkisborgararétti.

Danskir fjölmiðlar segja lögreglu lengi hafa lýst eftir manninum sem er 25 ára og uppalinn í úthverfi Kaupmannahafnar. Hann birtist í áróðursmyndböndum ISIS frá árinu 2016 og er nú talinn hafast við í Tyrklandi. Maðurinn er einnig tyrkneskur ríkisborgari.

Maðurinn á að hafa reynt að fá sent nýtt danskt vegabréf til að hann geti ferðast aftur til Danmerkur. Því hefur þó verið synjað.

Mál mannsins er það fyrsta slíkrar tegundar sem tekið er fyrir eftir að danska þingið staðfesti ný lög í október sem heimilar ríkisstjórn að svipta ISIS-liðum með tvöfalt ríkisfang dönskum ríkisborgararétti sínum. Er það gert mögulegt án þess að málið rati fyrir dómstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×