Erlent

Á níunda tug kjarrelda brennur í Ástralíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Gróður brennur við kross í Possum í Nýju Suður-Wales í dag. Neyðarástandi hefur víða verið lýst yfir vegna eldanna.
Gróður brennur við kross í Possum í Nýju Suður-Wales í dag. Neyðarástandi hefur víða verið lýst yfir vegna eldanna. Vísir/EPA
Yfirvöld í Nýju Suður-Wales í Ástralíu vöruðu við „hamfaraaðstæðum“ fyrir kjarrelda í dag. Fleiri en 85 eldar brenna nú í ríkinu og meira en helmingur þeirra stjórnlaust. Eldhættan er sögð ein sú versta í sögu landsins.

Óttast er að suðlæg vindátt blási lífi í eldana og stefni þeim í nýja átt. Um sex milljónir manna búa á svæðunum á austurströndinni þar sem eldhættan er mest og hafa eldarnir náð að úthverfum Sydney. Nokkrir eldar eru sagðir þekja meira en 100.000 hektara og glíma slökkviliðsmenn við þá á um þúsund kílómetra löngu svæði við norðurströnd Nýju Suður-Wales.

Íbúar hafa verið hvattir til að halda sig frá kjarrlendi og flýja heimili sín áður en eldarnir færast í aukana. Fleiri en sex hundruð skólum hefur verið lokað vegna þeirra, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þrír hafa látist og um 150 hús hafa skemmst frá því að aukinn kraftur færðist í eldana á föstudag.

Ríkisstjórn íhaldsmanna hefur sætt gagnrýni fyrir að neita að ræða áhrif loftslagsbreytinga af völdum manna á eldhættuna. Vísindamenn hafa engu að síður varað við því að gróðureldatímabilið í Ástralíu hafi lengst og orðið ákafara vegna loftslagsbreytinga.

Veðurstofa Ástralíu hefur jafnframt sagt að loftslagsbreytingar hafi fjölgað hitabylgjum og ágert aðrar náttúruhamfarir eins og þurrka


Tengdar fréttir

Eldarnir gætu ógnað íbúum í Sydney

Óttast er að mikir gróðureldar í Ástralíu geti ógnað íbúum í Sydney. Að minnsta kosti þrír hafa látist í eldunum. Gróðureldunum hefur fylgt mikil eyðilegging en á annað hundrað heimili eru gjörónýt eftir eldana.

Gróður­eldar herja á íbúa í Ástralíu

Talsmenn ástralskra yfirvalda segja að fordæmislaus fjöldi alvarlegra skógarelda ógni nú íbúum í ríkinu New South Wales í suðausturhluta landsins.

Þrjú látin í kjarreldum í Ástralíu

Miklir eldar sem nú loga á þurrkasvæðum á austurströnd Ástralíu hafa kostað þrennt lífið. Þá hafa yfir 150 heimili brunnið til grunna og um og yfir 30 manns hafa slasast vegna kjarreldana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×