Erlent

Nýr for­seti mætti með stóra biblíu inn í for­seta­höllina

Atli Ísleifsson skrifar
Hin 52 ára Jeanine Áñez er lögmaður og harður andstæðingur Morales. Hún tók sæti á þingi árið 2010.
Hin 52 ára Jeanine Áñez er lögmaður og harður andstæðingur Morales. Hún tók sæti á þingi árið 2010. EPA
Stjórnlagadómstóll Bólivíu hefur lagt blessun sína yfir því að hægrikonan Jeanine Áñez, öldungadeildarþingmaður stjórnarandstöðunnar, hafi lýst sjálfa sig forseta Bólivíu til bráðabirgða. Evo Morales sagði af sér embætti um helgina.

Áñez segir stjórnarskrá landsins kveða á um að hún taki við embættinu og hefur hún heitið því að boða til kosninga innan skamms.

Samflokksmenn Morales sniðgengu þingfundinn og hefur Morales sjálfur lýst Áñez sem hægrisinnuðum valdaræningja.

Áñez hélt á stórri biblíu þegar hún hélt inn í forsetahöllina og sagði „biblíuna nú snúa aftur í forsetahöllina.“



Morales hefur flúið til Mexíkó þar sem honum var boðið pólitískt hæli, auk þess að hann segir líf sitt vera í hættu. Hann sagði af sér embætti eftir mótmæli síðustu vikna. Þau blossuðu upp eftir að alþjóðlegir eftirlitsmenn settu út á framkvæmd forsetakosninganna í október þar sem Morales lýsti yfir sigri. Sagðist hann hafa verið tilneyddur en hafi þó sagt af sér af frjálsum og fúsum vilja til að forðast frekari blóðsúthellingar.

Hin 52 ára Áñez er lögmaður og harður andstæðingur Morales. Hún hefur áður gegnt embætti forstjóra sjónvarpsstöðvarinnar Totalvision og átt sæti í öldungadeild þingsins frá 2010. Hún er þingmaður Beni-héraðs.

Sem einn varaforseta þingsins tók Áñez yfir stjórn þingsins eftir að varaforseti landsins og forseti þingsins sögðu af sér. Hún hafi því verið næst í röðinni að taka við forsetaembættinu samkvæmt stjórnarskrá.

Evo Morales tók við forsetaembættinu í Bólivíu árið 2006. Hann var fyrstur manna af frumbyggjaættum til að gegna embættinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×