Erlent

Bjóða Trump að svara spurningum þingmanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar. AP/J. Scott Applewhite
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, bauð í gær Donald Trump, forseta, að mæta á fund þingmanna og svara spurningum þeirra varðandi rannsókn fulltrúadeildarinnar á mögulegum embættisbrotum forsetans. Pelosi sagði hann einnig geta svarað spurningum skriflega ef hann vildi. Þetta sagði hún vegna ummæla Trump um að hann fengi ekki færi á að verja sig gegn rannsókninni.

Chuck Schumer, formaður þingflokks Demókrata í öldungadeildinni, sló á svipaða strengi og sagði að ef forsetinn væri ekki sáttur við það sem hann heyrði, ætti hann að koma sjálfur og bera vitni. Þar að auki ætti hann að leyfa starfsfólki sínu að bera vitni en Trump hefur meinað fjölda starfsmanna sinna að svara spurningum þingmanna.



Schumer sagði þá staðreynd leiða til þess að hann velti fyrir sér hvað Trump hefði að fela.

Opnar vitnaleiðslur munu halda áfram í þessari viku eftir að þær hófust í þeirri síðustu. Á meðal þeirra sem munu bera vitni er Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu.

Hann er eina vitnið hingað til sem hefur persónulega rætt við Trump um þann þrýsting sem beitt var gegn ríkisstjórn Úkraínu til að fá þá til að hefja tvær rannsóknir sem myndu nýtast Trump fyrir forsetakosningarnar á næsta ári og hvort Trump hafi haldið aftur af neyðaraðstoð til Úkraínu, sem þingið hafði samþykkt, með því markmiði að þvinga Úkraínumenn til að hefja þær rannsóknir.

Tvö vitni segjast hafa heyrt Sondland ræða við Trump í síma um málið. Sjálfur segist Trump ekki muna eftir slíkum símtölum og hefur gefið í skyn að hann viti í raun ekki hver Sondland er.

Gordon Sondland er hótelkeðjueigandi og fjárhagslegur bakhjarl Trump og repúblikana. Hann var gerður sendiherra gagnvart ESB þrátt fyrir enga reynslu af opinberum erindrekstri.


Tengdar fréttir

Sondland sagðist fara eftir skipunum Trump

Fyrrverandi meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins viðurkennir að hafa lagt til að hylja gögn um símtal á milli Trump og Zelensky. Þrátt fyrir það sagðist hann ekki hafa heyrt neitt óviðeigandi í símtalinu.

„Allt hvíldi á rannsóknum“

Sérstakur erindreki Donalds Trump Bandaríkjaforseta greindi starfandi sendiherranum í Úkraínu að allt sem úkraínsk stjórnvöld sóttust eftir frá Bandaríkjastjórn hengi á því að þau létu rannsaka pólitíska andstæðinga Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×