Viðskipti innlent

Efnuðustu 5% Íslendinga eiga tæpan þriðjung eigna í landinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á hlutdeild eignamestu Íslendinganna í heildareignum og tekjum landsmanna undanfarin ár.
Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á hlutdeild eignamestu Íslendinganna í heildareignum og tekjum landsmanna undanfarin ár. Vísir/Vilhelm
Heildareignir þeirra 5% framteljenda sem áttu mestar eignir við síðustu áramót námu rúmum tvö þúsund milljörðum króna, eða um 31,8% af heildareignum Íslendinga. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn um eignir og tekjur landsmanna í fyrra.

Logi Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, bað Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, um tölfræði um eigið fé, heildareignir og tekjur þeirra Íslendinga sem mest áttu við lok síðasta árs.

Í svari ráðherra sem lagt var fram á Alþingi í dag kemur fram að eignahæsta 1% framteljenda hafi átt tæpa 844 milljarða króna eða um 12,8% heildareigna um áramótin. Auðugasta 0,1% átti tæplega 266 milljarða, um 4% heildareigna landsmanna.

Hlutdeild eignamestu 5% í heildareignum landsmanna hefur lítið breyst frá því skömmu fyrir hrun. Hæst var hlutdeildin árið 2007 þegar hún nam 33,1%. Eignirnar hafa aftur á móti tæplega tvöfaldast á þeim tíma. Frá árinu 1998 hefur hlutdeild efstu 5% hækkað um 3,7 prósentustig.

Litlar breytingar hafa einnig orðið á hlutdeild þeirra allra eignamestu í landinu undanfarin ár. Mest átti auðugasta 0,1% framteljenda 5,8% heildareigna í landinu árið 2007. Síðan þá hefur hlutfallið þokast hægt og bítandi niður á við.

Hlutdeild efnaðasta 1% hefur einnig lækkað úr 15,5% árið 2007 í 12,8% í fyrra. Til samanburðar var hlutdeild þess í heildareignum á bilinu 11-12% frá 1998 til 2005.

Þegar litið er til tekna tekjuhæsta hluta framteljenda að fjármagnstekjum meðtöldum voru tekjuhæstu 5% með 21,2% heildartekna í fyrra. Efsta 1% var með 7,9% teknanna og efsta 0,1% með 2,4% heildartekna. Það er verulegur samdráttur frá hruni. Þegar mest lét árið 2007 var tekjuhæsta 0,1% með 10,2% heildartekna í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×