Erlent

Nasisti ætlaði að sprengja bænahús í loft upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Einn útsendari FBI hafði upprunalega samband við Holzer í gegnum Facebook. Sá þóttist vera ung kona sem styddi málstað nýnasista.
Einn útsendari FBI hafði upprunalega samband við Holzer í gegnum Facebook. Sá þóttist vera ung kona sem styddi málstað nýnasista. Vísir/Getty
Útsendarar Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) handtóku á föstudaginn mann sem ætlaði sér að sprengja bænahús gyðinga í loft upp. Hinn 27 ára Richard Holzer vildi jafna húsið, sem er í Pueblo í Colorado, við jörðu og sagði að árásin yrði liður í heilögu stríði kynþátta. Hann sagði útsendurum sem þóttust vera hliðhollir honum að hann vildi sömuleiðis eitra fyrir gyðingum í borginni.

Einn útsendari FBI hafði upprunalega samband við Holzer í gegnum Facebook. Sá þóttist vera ung kona sem styddi málstað nýnasista. Í samskiptum þeirra sagðist Holzer vera nýnasisti og fyrrverandi meðlimir Ku Klux Klan.

Holzer sagðist upprunalega vilja beita bensínsprengjum gegn bænahúsinu en sagðist svo vilja beita einhverju öflugra. Útsendarar FBI sem voru í samskiptum við hann sögðust geta útvegað rörasprengjur og dínamít.

Þann 1. nóvember hitti Holzer þrjá útsendara FBI og mætti hann skreyttur nasistatáknum á fund þeirra. Hann var svo handtekinn þegar hann tók á móti gervi-sprengjum frá útsendurunum og sagði þeim að hann ætlaði að nota sprengjurnar seinna á föstudeginum.

Samkvæmt ákæru var hann spurður hvað hann myndi gera ef einhver yrði í bænahúsinu. Þá sagði hann að honum væri alveg sama. Það yrðu ekkert nema gyðingar þar inni.

Hann játaði að hafa ætlað að fremja árásina. Verði hann fundinn sekur gæti hann setið í fangelsi í allt að tuttugu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×