Viðskipti innlent

Play hættir við að ráða „leikfélaga“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Play leitar ekki lengur að rauðklæddum leikfélögum.
Play leitar ekki lengur að rauðklæddum leikfélögum. Play
Þrátt fyrir að lággjaldaflugfélagið Play sé enn í startholunum hefur það þegar ákveðið að gera breytingar á starfsmannahópnum. Stjórnendur fyrirtækisins hafa ákveðið að ráða enga „leikfélaga“ eins og til stóð, heldur reiða sig frekar á „þjónustuhetjur.“

Play var kynnt til leiks í gær og hefur þegar hafið leit að starfsfólki. Upplýsingafulltrúi flugfélagsins, María Margrét Jóhannsdóttir, segir í samtali við Vísi að gert sé ráð fyrir að ráðið verði í um 200 stöðugildi á næstu mánuðum. Nú þegar, sólarhring eftir að opnað var fyrir umsóknir, hafi næstum 1000 manns sótt um starf hjá Play.

Athygli vöktu starfsheitin sem bitist er um hjá flugfélaginu. Til að mynda leitar Play að „söluséní,“ „markaðsgúrú,“ „orðsnillingum“ og „talnaglöggvurum.“ Þeir fjölmiðlar sem gerðu sér mat úr starfsheitunum í gær settu hins vegar flestir leitina að „leikfélögum“ í fyrirsagnir sínar.

Lýsing á starfi leikfélaga sem Play birti í gær.
Ætla má að fjölmiðafólki hafi þótt það áhugaverðast enda eru „leikfélagar“ eitthvað sem til þessa hefur helst mátt finna á blöðum tímaritsins Playboy, enda eru forsíðustúlkur þess kallaðar „Playboy Playmates.“

Nú er hins vegar enga leikfélaga að finna á umsóknarsíðu flugfélagsins. Leikfélögum Play var ætlað að „ræða við viðskiptavini á samfélagsmiðlum, í pósti og á netspjalli“ og gegna þannig hlutverki þess sem kalla mætti þjónustufulltrúa. Nú er það hlutskipti ætlað „þjónustuhetjum.“

Upplýsingafulltrúinn María Margrét segir að starfsheitabreytinguna megi líklega rekja til þess að „leikfélagi“ þótti ekki lýsa starfinu nógu vel. „Þjónustuhetja lýsir klárlega betur innihaldi starfsins,“ segir María.


Tengdar fréttir

Play kynnt til leiks

Nýtt íslenskt flugfélag mun hefja sig til flugs á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×