Erlent

Bitar úr lofti hrundu yfir leikhúsgesti á West End

Andri Eysteinsson skrifar
Hér má sjá skemmdirnar í lofti Piccadilly.
Hér má sjá skemmdirnar í lofti Piccadilly. Twitter/KBGDUNN
Slys urðu á fólki í London í dag þegar að hluti úr lofti Piccadilly leikhússins í West End, leikhúshverfi Lundúna, hrundi yfir áhorfendur á meðan að sýning stóð yfir á verki Arthurs Millers, Sölumaður deyr. (e. Death of a Salesman).

Sky greinir frá því að vatnsleki hafi orsakað hrunið úr loftinu. Viðbragðsaðilar voru kallaðir til skömmu fyrir klukkan átta að staðartíma. Myndir frá vettvangi sýna umfang vatnsskemmdanna.

Einn leikhúsgesta, Tracy De Groose, lýsir upplifun sinni frá atvikinu á Twittersíðu sinni.



„Rennandi vatn, svo mikil öskur. Nokkur smávægileg meiðsli,“ skrifar De Groose og bætir við að aðalleikari sýningarinnar Wendell Pierce, sem meðal annars hefur leikið í sjónvarpsþáttunum The Wire og Suits, hafi gengið úr skugga um að leikhúsgestir væru óhultir.

Leikhúsið var í kjölfarið rýmt og munu rýmingaraðgerðir hafa gengið vel. Sky hefur eftir öðrum leikhúsgesta, blaðamanninum Martin George, að tíu mínútum eftir að sýningin hafi hafist hefðu gestir geta heyrt vatn dropa úr þakinu. Hljóðið hafi stigmagnast og að endingu hafi þónokkrir gesta staðið upp og ætlað að yfirgefa svæðið. „Þá, þegar við stóðum upp til að fara féll 3-4 metra bútur úr þakinu niður,“ segir George.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×