Erlent

OJ Simpson segir orðspor sitt hafa beðið hnekki eftir umfjöllun TMZ

Andri Eysteinsson skrifar
OJ Simpson var látinn laus úr fangelsi sex vikum áður en atvikið átti sér stað.
OJ Simpson var látinn laus úr fangelsi sex vikum áður en atvikið átti sér stað. Getty/Pool
Fyrrverandi ruðningskappinn Orenthal James Simpson, best þekktur sem OJ, hefur höfðað mál gegn hótel-spilavíti í Las Vegas og sakar starfsmenn hótelsins um ærumeiðingar eftir að þau láku upplýsingum í slúðurmiðilinn TMZ. AP greinir frá.

Simpson hefur, eins og flestir vita, komist í kast við lögin áður á sinni lífsleið. Árið 1995 var Simpson sýknaður af morðinu á fyrrverandi eiginkonu sinni Nicole og vini hennar Ron Goldman. Þá sat Simpson inni í níu ár eftir vopnað mannrán í Las Vegas árið 2007. Simpson var dæmdur í allt að 33 ára fangelsi árið 2008 en var látinn laus í október 2017.

Simpson, sem er enn á skilorði, segir að hann ásamt vini sínum hafi verið bannaðir frá Cosmopolitan hótelinu án þess að hafa verið gefin ástæða fyrir. Þeir hafi setið að snæðingi á steikhúsi hótelsins þegar þeim var gert að yfirgefa svæðið. Simpson segist hvorki hafa verið með ólæti né valdið skemmdum á eigum hótelsins.

Lögmaður Simpson segir að orðspor skjólstæðings síns hafi beðið hnekki eftir að starfsfólk hótelsins sagði Simpson hafa verið ölvaðan og með ólæti á hótelbarnum í samtölum við slúðurmiðilinn TMZ.

Atvikið sem um ræðir gerðist einungis um sex vikum eftir að Simpson var sleppt úr fangelsi. Í ákærunni stendur að Simpson hafi eingöngu verið til fyrirmyndar á meðan hann er á skilorði




Fleiri fréttir

Sjá meira


×