Erlent

Varar við því að borgarastyrjöld kunni að hefjast á ný

Andri Eysteinsson skrifar
Riek Machar (v) og Salva Kiir (h) við undirritun friðarsamnings árið 2018.
Riek Machar (v) og Salva Kiir (h) við undirritun friðarsamnings árið 2018. Getty/Anadolu Agency
Á þeim átta árum sem liðin eru frá því að Suður-Súdan var veitt sjálfstæði frá Súdan hefur borgarastyrjöld lengst af geisað í landinu. Átök hafa geisað síðan árið 2013 en í lok október 2018 var samið um vopnahlé.

Leiðtogi stjórnarandstöðuhreyfingarinnar í ríkinu Riek Machar hefur nú varað stjórnvöld við því að átök gætu hafist að nýju taki ný ríkisstjórn við fyrir 12. nóvember næstkomandi. Hefur Machar óskað eftir því að myndun nýrrar stjórnar verði frestað. AP greinir frá.

Í samningnum sem gerður var í fyrra er gert ráð fyrir því að Machar og forsetinn Salva Kiir deili völdum í landinu. Tilraunir til að skipta með þeim völdum voru gerðar árið 2016 með þeim afleiðingum að átök blossuðu upp og Machar neyddist til að flýja land.

„Ef við myndum ríkisstjórn þá mun vopnahléið leysast upp,“ sagði Machar við fulltrúa Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna sem fundað hafa með Machar og Salva Kiir með það að markmiði að binda enda á átökin í landinu.

Machar sem nú býr í höfuðborg nágrannaríkisins Súdan, kveðst ekki vilja snúa aftur til heimalandsins þar sem að öryggi hans er ekki tryggt. Krefst hann þess að valdaskiptunum verði frestað um þrjá mánuði á meðan að hersveitir eru þjálfaðar til þess að tryggja öryggi hans frá andstæðingum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×