Handbolti

Heimsmeistari óánægður með að þurfa að sitja þjálfaranámskeið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jacobsen með heimsmeistarastyttuna. Danir unnu alla leiki sína á HM 2019.
Jacobsen með heimsmeistarastyttuna. Danir unnu alla leiki sína á HM 2019. vísir/getty
Þrátt fyrir að hafa gert danska karlalandsliðið í handbolta að heimsmeisturum í ársbyrjun á Nikolaj Jacobsen eftir að taka þjálfaragráðu sem gerir honum kleift að starfa við þjálfun á hæsta getustigi.

Jacobsen hefur verið gert að klára EHF Pro License þjálfaragráðuna sem þjálfarar þurfa að hafa til að mega stýra liðum á stórmótum landsliða og í Meistaradeild Evrópu frá og með næsta tímabili.

Jacobsen, og aðstoðarmaður hans með danska landsliðið, Henrik Kronborg, þurfa því að gjöra svo vel að setjast á skólabekk. Jacobsen hefur lítinn húmor fyrir því.

„Árangurinn ætti að tala sínu máli. Stundum þurfa menn að horfa í gegnum fingur sér varðandi þá sem hafa þjálfað í mörg ár. Ég hef ekkert á móti því að klára verkefnin en mér finnst það frekar ýkt og smá vanvirðing að þurfa að sitja öll námskeiðin,“ sagði Jacobsen við Extra Bladet.

„Það sem ég hef lært finnurðu ekki í bókum. Ég hef allt aðra þekkingu en kennararnir á námskeiðunum.“

Auk þess að hafa gert Dani að heimsmeisturum stýrði Jacobsen Rhein-Neckar Löwen til sigurs í þýsku úrvalsdeildinni tvö tímabil í röð. Þá varð Aalborg danskur meistari undir hans stjórn.

Misjafnt er milli landa hversu langan tíma það tekur að klára EHF Master Coach námið sem gerir þjálfurum kleift að taka EHF Pro License gráðuna. Í Þýskalandi tekur það aðeins en í Danmörku tekur það jafnan rúmlega eitt og hálft ár samkvæmt Extra Bladet.

Jacobsen tók við danska landsliðinu af Guðmundi Guðmundssyni fyrir tveimur árum. Þeir mætast á EM 2020 en Ísland og Danmörk eru saman í riðli ásamt Rússlandi og Ungverjalandi. Leikirnir í riðlinum fara fram í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×