Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í Kaliforníu vegna kjarreldanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Víngerð í Healdsburg í Kaliforníu fuðrar upp í Kincade-eldinum í dag.
Víngerð í Healdsburg í Kaliforníu fuðrar upp í Kincade-eldinum í dag. Vísir/EPA
Hátt í tvö hundruð þúsund manns hefur nú verið skipað að yfirgefa heimili sín í norðanverðri Kaliforníu vegna kjarrelda sem geisa þar. Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, hefur lýst yfir neyðarástandi í öllu ríkinu.

Tugir þúsunda íbúðarhúsa eru sagðir í hættu vegna eldanna og rafmagn hefur verið tekið af svæðum þar sem um milljón manns býr. Búist er við því að milljón manns til viðbótar missi rafmagn fljótlega þegar orkufyrirtæki taka það af til að koma í veg fyrir að fleiri eldar kvikni út frá því, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Rýming er í gildi í stórum hluta Sonoma-sýslu, þar á meðal í Santa Rosa. Vegir þar eru sagðir fullir af bílum fólks sem flýr eldana. Eldar hafa þegar brennt um 12.000 hektara lands í Sonoma.

Newsom sagði í ávarpi sem hann birti á Twitter í dag að rafmagnsleysið væri ergjandi fyrir alla. Reynt verði að koma því aftur á sem fyrst.

Orkufyrirtækið PG&E hefur legið undir harðri gagnrýni vegna viðbragða þess við eldunum. Það stendur frammi fyrir lögsóknum vegna Camp-eldsins sem kviknaði í fyrra og varð 85 manns að bana. Talið er að sá eldur hafi kviknað út frá gömlum tækjabúnaði fyrirtækisins.

Til að fyrirbyggja frekari elda við þær kjöraðstæður fyrir kjarrelda sem nú ríkja í Kaliforníu hefur PG&E brugðið til þess ráðs að taka rafmagn af í 36 sýslum þar sem milljónir manna búa.

Áfram er búist við hvassviðri og þurrki sem hefur skapað þær eldfimu aðstæður sem nú ógna ríkinu fram á morgundaginn.


Tengdar fréttir

90 þúsund flýja skógarelda og milljónir án rafmagns

90 þúsund íbúar í norðurhluta Kaliforníu-ríkis Bandaríkjanna hafa verið beðin um að yfirgefa heimili sín vegna skógarelda sem þar geisa. Búist er við að tvær milljónir íbúa verði ríkis verði án rafmagns vegna varúðarráðstafana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×