Innlent

Jarðarvinir kæra Náttúrustofu Austurlands

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Ole Anton Bieltvedt formaður Jarðarvina.
Ole Anton Bieltvedt formaður Jarðarvina.
Dýra- og náttúruverndarsamtökin Jarðarvinir hafa kært Náttúrustofu Austurlands til lögreglu fyrir vanrækslu vegna skýrslu um afdrif og afföll hreindýrskálfa. Ole Anton Bieltvedt, forsvarsmaður samtakanna, segir að um 600 kálfar hafi drepist síðasta vetur.

„Við tókum þetta mál upp í hitteð­fyrra þegar við sáum hvernig var verið að drepa hreindýrskýr frá litlum kálfum. Þeir voru rétt orðnir átta vikna yngstir og engan veginn í stakk búnir til að takast á við veturinn,“ segir Ole.

Eftir athugasemdir Jarðarvina ákvað umhverfisráðherra að láta Náttúrustofu Austurlands rannsaka afdrif kálfanna og skila skýrslu. Í maí lágu gögnin fyrir en skýrslan hefur tafist. Í millitíðinni var sent minnisblað til ráðuneytisins sem Jarðarvinir telja ófullnægjandi því að skýrslan hefði átt að liggja til grundvallar veiðitímabilinu í haust. „Við viljum að lögreglustjóri rannsaki það hver beri ábyrgð á því að skýrslan hafi ekki borist tímanlega,“ segir Ole.

Skarphéðinn G. Þórisson, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir að engin ákveðin dagsetning hafi verið sett á skil skýrslunnar og jafnframt hafi það verið ákveðið á fundi með ráðuneytinu að niðurstöður skýrslunnar myndu ekki hafa áhrif á veiðitímabilið nú í haust. „Við erum fá og að vinna í ýmsu öðru, svo það tók lengri tíma að vinna úr gögnunum,“ segir Skarphéðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×