Erlent

Ákærð fyrir sjálfsvíg kærasta síns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alexander Urtula og Inyoung You.
Alexander Urtula og Inyoung You.
Saksóknari í Boston í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur ákært unga konu fyrir manndráp af gáleysi vegna sjálfsvígs kærasta hennar.

Alexander Urtula, 22 ára, féll fyrir eigin hendi í maí síðastliðnum. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir lögmanni að kærasta hans, hin suður-kóreska Inyoung You, hafi beitt hann ofbeldi. Urtula og You voru bæði nemar við Boston-háskóla (Boston College) þegar sá fyrrnefndi lést. Þau voru par í um eitt og hálft ár.

Héraðssaksóknari tilkynnti á blaðamannafundi í gær að umfangsmikil rannsókn á málinu hefði leitt í ljóst að Young hefði beitt Urtula líkamlegu og andlegu ofbeldi meðan á sambandi þeirra stóð. Ofbeldið hafi jafnframt stigmagnast í aðdraganda andláts Urtula og hún ítrekað sent honum smáskilaboð þar sem hún hvatti hann til sjálfsvígs.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mál af þessum meiði kemur upp í Bandaríkjunum. Hin tvítuga Michelle Carter var árið 2017 dæmd í fimmtán mánaða fangelsi fyrir manndráp af gáleysi með því að hvetja kærasta sinn til að svipta sig lífi. Framhald málsins gegn You er óljóst en hún er nú í Suður-Kóreu og hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×