Erlent

Dómstóll stöðvar ströng þungunarrofslög Alabama

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmæli krefst þess að bönn við þungunarrofi verði stöðvuð við Hæstarétt Bandaríkjanna fyrr á þessu ári.
Mótmæli krefst þess að bönn við þungunarrofi verði stöðvuð við Hæstarétt Bandaríkjanna fyrr á þessu ári. Vísir/EPA
Nær algert bann við þungunarrofi í Alabama í Bandaríkjunum tekur ekki gildi í næsta mánuði eins og til stóð eftir að alríkisdómstóll setti lögbann á það. Fylgismenn laganna stefna að því að lögin komi til kasta Hæstaréttar Bandaríkjanna með þeirri von að hann afnemi réttinn til þungunarrofs í landinu.

Lögin sem ríkisþing Alabama samþykkti fyrr á þessu ári og áttu að taka gildi 15. nóvember hefðu orðið þau ströngustu í Bandaríkjunum. Þau hefðu bannað þungunarrof í nær öllum tilvikum og á öllum stigum meðgöngu. Þá hefði verið hægt að sækja lækna sem framkvæmdu þungunarrof til saka og dæma þá í allt að 99 ára fangelsi. Aðeins var gerð undanþága frá banninu þegar líf konu er í hættu en ekki í tilfellum nauðgunar eða sifjaspells.

Alabama var eitt nokkurra íhaldssamari ríkja Bandaríkjanna þar sem ríkisþingmenn Repúblikanaflokksins samþykktu ströng þungunarrofslög. Í öllum tilfellum hafa dómstólar stöðvað gildistöku laganna, að sögn New York Times.

Yfirlýst markmið stuðningsmanna frumvarpanna er að fá Hæstarétt Bandaríkjanna til að snúa við dómafordæmi sínu sem lögleiddi þungunarrof. Hæstirétturinn er nú skipaður öruggum meirihluta íhaldssamra dómara eftir að Donald Trump forseti og repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings staðfestu tvo nýja dómara við réttinn í fyrra og hittifyrra.


Tengdar fréttir

Ein ströngustu þungunarrofslög Bandaríkjanna staðfest

Lögin kveða á um að þungunarrof sé bannað eftir að hjartsláttur greinist í fóstri. Læknar benda á að slíkt geti verið misvísandi og að margar konur viti ekki af því að þær séu óléttar á því stigi.

Þungunarrofslöggjöfin stranga í Alabama hluti af stærri mynd

Ríkisþingið í Alabama í Bandaríkjunum samþykkti í gær einhverja ströngustu þungunarrofslöggjöf sem fyrirfinnst í landinu. Löggjöfin bannar konum í öllum tilfellum að fara í fóstureyðingu nema að heilsu þeirra sé ógnað. Stjórnmálafræðingur segir þetta liður í stærra púsli til að hnekkja löggjöfinni fyrir hæstarétti Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×