Erlent

ESB gefur grænt ljós á „kraft­meiri“ Brexit-við­ræður

Atli Ísleifsson skrifar
Breski Brexitmálaráðherrann Steve Barclay og Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, funduðu í morgun.
Breski Brexitmálaráðherrann Steve Barclay og Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, funduðu í morgun. epa
Stjórnvöld í aðildarríkjum Evrópusambandsins hafa gefið grænt ljós á „kraftmeiri“ viðræður varðandi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Tilkynningin kemur eftir fund breska Brexit-málaráðherrans Steve Barclay og Michel Barnier, aðalsamningamanns ESB í Brexit-málum, sem báðir lýstu sem „uppbyggilegum“.

Bretland mun að óbreyttu ganga úr Evrópusambandinu klukkan 23 að kvöldi 31. október næstkomandi.

Litið er á leiðtogafund aðildarríkja ESB í næstu viku sem síðasta möguleikann til að ná saman um útgöngusamning áður en fresturinn rennur út.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti endurskoðaðar tillögur að útgöngusamningi í síðustu viku, en helsti ásteytingarsteinninn í viðræðunum snýr að tilhögun á landamærum Írlands og Norður-Írlands.

Boris Johnson og Leo Varadkar funduðu á Thornton Manor Hotel nærri Birkenhead í gær.Getty

Varadkar nú sannfærður um að Bretar vilji í raun samning

Johnson og Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, áttu tvíhliða fund í gær – fundi sem lýst var sem „mjög jákvæðum og mjög lofandi“. Sagði Varadkar viðræðurnar vera á viðkvæmu stigi, en að hann væri nú sannfærður um að Bretar vilji í raun ná samkomulagi fyrir útgöngu.

Johnson fullyrðir að Bretland muni ganga úr sambandinu síðasta dag októbermánaðar, burtséð frá því hvort að samningar náist eður ei.

Takist ESB og bresku ríkisstjórninni að ná saman um nýjan samning þyrfti breska þingið engu að síður að samþykkja samninginn.


Tengdar fréttir

Macron setur Johnson afarkosti

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur gefið Boris Johnson forsætisráðherra Breta út þessa viku til að endursemja áætlun sína um Brexit frá grunni.

Átök á tveimur vígstöðvum

Eins og búist var við tóku leiðtogar Evrópusambandsríkjanna fálega í tillögur Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um útgöngusamning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×