Erlent

Fyrr­verandi aðal­ritari sænsku nóbels­nefndarinnar látinn

Andri Eysteinsson skrifar
Sara Danius við veitingu Nóbelsverðlauna árið 2017
Sara Danius við veitingu Nóbelsverðlauna árið 2017 Getty/Anadolu
Sara Danius, fyrrverandi aðalritari sænsku Nóbelsverðlaunanefndarinnar, er látin 57 ára að aldri eftir langvinn veikindi. Frá þessu greinir sænski miðilinn SVT.

Danius sem var bókmenntafræðingur að mennt fæddist í bænum Täby árið 1962. Hún lagði stund á nám við Háskólann í Stokkhólmi, Háskólann í Nottingham og öðlaðist doktorsgráður frá Duke-háskólanum í Bandaríkjunum og frá Háskólanum í Uppsölum.

Danius hlaut inngöngu í sænsku nóbelsverðlaunanefndina í mars 2013 og varð aðalritari nefndarinnar 1.júní 2015. Sænska nóbelsverðlaunanefndin hefur það á sinni könnu að veita Nóbelsverðlaun í bókmenntum.

Í apríl 2018 sagði Danius af sér embætti eftir að upp komst að eiginmaður eins nefndarmeðlima hafi verið sakaður um kynferðislega áreitni. Málið hafði mikil áhrif á störf nefndarinnar og voru bókmenntaverðlaunin ekki veitt árið 2018.

Í febrúar síðastliðnum sagði Danius af sér nefndarstörfum en hún dró sig í hlé vegna glímu sinnar við brjóstakrabbamein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×