Skoðun

Samráð gegn sundrungu

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Sundrung einkennir stjórnmál og samfélög um allan heim í æ meiri mæli. Við virðumst eiga æ erfiðara með að setjast yfir málin, hlusta á sjónarmið annarra og reyna að ná saman um lausnina. Á sama tíma flæða yfir okkur upplýsingar af ýmsum toga, ýmist sannar, hálfsannar eða hrein og klár lygi og skrumskæling og oft og tíðum erfitt að greina á milli. Bergsmálshellir samfélagsmiðlanna veldur því svo að við sjáum oftar en ekki aðeins það sem við viljum sjá og ef annað slæðist með úthrópum við það með gífuryrðum.

Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er þannig skipuð að hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana, frá vinstri til hægri yfir miðjuna. Skipanin er óvenjuleg og um margt söguleg, en byggir á því að ólík sjónarmið nái saman og skapi sátt um löngu tímabæra uppbyggingu í samfélaginu. Að kannski sé betra að reyna að ná saman um mál en að öskra hvert á annað á netinu.

Katrín Jakobsdóttir hefur sýnt það sem forsætisráðherra að henni er lagið að leiða fram góð mál. Við í Vinstri grænum getum verið stolt af því hvernig hún hefur komið málum hreyfingar okkar í framkvæmd. Það hefur tekist með samtali og samvinnu við samstarfsflokkana og aðra flokka. Þá hefur framganga hennar og áherslur á alþjóðavettvangi vakið athygli um allan heim.

Landsfundur Vinstri grænna hefst í dag. Þar gefst gott tækifæri til að fara yfir stöðu hreyfingarinnar, þau mál sem við höfum komið á dagskrá og í framkvæmd og hvert við viljum stefna. Það samtal, á miðju kjörtímabili, verður hollt og uppbyggilegt fyrir áframhaldandi starf. Framtíð Vinstri grænna undir forystu Katrínar Jakobsdóttur er björt.

Samráð vinnur gegn sundrungu. Sjaldan hafa þessi sannindi verið jafn mikilvæg og í þeim flókna nútíma sem við lifum nú um stundir.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×