Erlent

Fimmtán námuverkamenn létust eftir að stífla brast

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Flóðbylgjan, sem myndaðist eftir að stíflan brast, sópaði með sér nokkrum kofum sem námuverkamenn bjuggu í.
Flóðbylgjan, sem myndaðist eftir að stíflan brast, sópaði með sér nokkrum kofum sem námuverkamenn bjuggu í. EPA/ RUSSIAN EMERGENCIES MINISTRY
Minnst 15 létust og þrettán er enn saknað eftir að stífla brast við gullnámu í Síberíu. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Stíflan, sem var í ánni Seiba á Krasnoyarsk svæðinu, brast eftir miklar rigningar á laugardag, og flæddi inn í kofa þar sem námuverkamenn bjuggu.

Rússnesk heilbrigðisyfirvöld sögðu að fjórtán námuverkamenn hafi verið fluttir á sjúkrahús þar af þrír sem voru alvarlega slasaðir.

Rannsókn hefur verið hafin á málinu en ásakanir hafa borist um að reglugerðir hafi verið brotnar við stífluna.

Nálægt þorp var rýmt vegna flóðanna.EPA/ RUSSIAN EMERGENCIES MINISTRY
„Vatnsfallsvirkjunin var gerð án aðkomu yfirvalda og, ég tel, að allar reglur hafi verið brotnar,“ sagði Yuri Lapshin, yfirmaður ríkisstjórnarinnar í Krasnoyarsk ríki, í samtali við fréttastofu RIA.

Vladimir Putin, forseti Rússlands, hefur fyrirskipað að yfirvöld aðstoði við að rannsaka hvað búi baki slyssins, samkvæmt talsmanni hans.

Nokkrir smáir kofar, þar sem námuverkamenn eru taldir hafa búið, sópuðust í burtu þegar vatnið flæddi yfir, samkvæmt frásögn fréttastofu Interfax.

Náman er mjög afskekkt en hún er rúmum 160 km suður af borginni Krasnoyarsk sem er 4000 km austur af Moskvu.

Tugir viðbragðsaðila hafa annast leitaraðgerðir og hlúað að þeim sem slasaðir eru. Verið er að rýma þorpið Kuragino, sem er nálægt námunni, vegna aukinnar vatnshæðar í Seiba ánni og flóða eftir stíflubrestinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×