Skoðun

Helför gegn litlum og fallegum fugli

Ole Anton Bieltvedt skrifar
Eins og allir vita, er rjúpan fallegur, skaðlaus og varnarlaus lítill fugl, sem auðgar og skreytir lífríkið. Rjúpan er lykiltegund í íslenzku vistkerfi og einn einkennisfugla íslenzkrar náttúru. Flestum, sem unna dýralífi, náttúru og umhverfi, mun þykja afar vænt um þessa litlu, fallegu og friðsælu lífveru, sem prýðir og gleður með fegurð sinni og líflegu korri.

Karrinn helgar sér óðal í apríl, og 2-3 vikum síðar veljast hæna og karri saman. Ef bæði lifa, bindast þau böndum saman all ævi. Rjúpan er því „einkvænisdýr“. Óðal karrans verður þeirra sameiginlega heimili, svo lengi, sem bæði lifa. Við eðlilegar aðstæður getur hænan orpið allt að 12 eggjum. Meðalvarp hér á Íslandi er hins vegar aðeins 6-8 ungar. Meðan ungarnir eru að vaxa úr grasi, dvelst karrinn í nánd við hreiðrið og gætir hænu og unga. Báðir foreldrar afla fæðu og fóðra ungana saman.

Hörð lífsbarátta

Fæðuleit er oftast einföld á sumrin, en rjúpan lifir aðallega á rjúpnalaufi, krækilyngi, bláberjalyngi, birki og grasvíði. Þegar haustar verður lífsbarátta rjúpunnar hins vegar oft hörð, einkum í harðæri og miklum snjóavetrum. Til marks um gáfnafar og þroska rjúpunnar, má nefna, að á vetrum byggja þær, 5-15 saman, snjóhús, þar sem þær dvelja að mestu yfir daginn. Í morgunsárið fara þær af stað í fæðisleit, sem oftast er hópvinna. Það er því langt í frá, að rjúpan sé „skynlaus skepna“ frekar en neitt annað dýr.

Rjúpan hefur verið elt, ofsótt og drepin í gegnum tíðina, framan af af þörf, í harðbýlu landi, en þessi þörf er ekki lengur til staðar. Nú flokkast rjúpnadráp undir tómstundagaman og skemmtun, jafnvel sport. Í mín eyru er orðið „sport“ yfir að elta, ofsækja, limlesta og níða niður saklausar og varnarlausar lífverur, sem ekkert hafa sér til saka unnið, óheyrilegt.

Náttúran hefur gefið rjúpunni 3 fjaðurhami á ári, til að verjast erkifjandanum, manninum, en það dugar skammt. Rjúpnaveiðimenn eru vopnaðir nýjustu sjónaukum og sjálfvirkum haglabyssum – marghlæðum – og er rjúpunni vart undankomu auðið, þegar dauðasveitin, yfirleitt um 6.000 veiðimenn, er komin í veiðiham.



Stofninn á alvarlegri niðurleið

Skv. nýlegri greinargerð Náttúrufræðistofnunar Íslands, „Ástand rjúpnastofnsins 2019“, er allt að 70% niðursveifla í stofnstærð rjúpunnar, á 26 af 32 talningarsvæðum, en á Suðurlandi, og þá einkum á Suðausturlandi, er stofninn hruninn; þar fundust nú aðeins 2 karrar á ferkílómetra, en, þegar mest var þar síðustu áratugi, voru þeir allt að 40. – Um allt Suðausturland, Suðurland, Vestfirði og Norðvesturland er rjúpnastofninn á frá 20% upp í 70% niðurleið, á 12 talningarsvæðum af 13, aðeins á 5 svæðum af 18 á Norðausturlandi og Austurlandi hefur stofninn styrkst. Ætti því fuglinn skilyrðislaust að vera friðaður í ár alls staðar, nema þá helzt á Norðausturlandi.

Þrátt fyrir þessa gífurlegu niðursveiflu rjúpnastofnsins 2019, miðað við 2018, er veiðitími nú aukinn, úr 15 dögum í fyrra og 12 dögum 2017, í 22 daga í ár. Er þeim mönnum, sem þessu stjórna, ekki sjálfrátt!? 2011 og 2012 voru veiðidagar 9. Hér hafa stjórnvöld, og þá einkum Umhverfisstofnun, látið undan þrýstingi og kröfum veiðimanna, og er eina vonin, að Guðmundur Ingi taki af skarið og stórminnki veiðisvæði og veiðitíma. Að fara með allt landið og veiðiákvarðanir sem eitt mál, við þessi skilyrði, er vitaskuld út í hött.

Hér er að mestu um það að ræða, að veiðimenn skjóta á fljúgandi fugla, sem eru að reyna að forða sér, limlesta þá og særa, án þess að drepa þá endanlega, og geta þessi blessuðu helsærðu dýr komið sér undan, til þess eins þó, að kveljast til dauða – oft úr blóðeitrun – fjarri veiðimanni. - Er greinilegt, að tugþúsundir fugla hafa verið níddar til dauða með þessum ömurlega hætti ár hvert, en þetta er kallað „veiði­afföll“, þó að níðdráp væri réttnefni. Þessir fuglar eru auðvitað ekki taldir með í veiðitölum.



Rjúpan er á válista

Náttúrufræðistofnun Íslands heldur „Válista fugla“. Á þessum lista stendur rjúpan undir fyrirsögninni „Tegundir í yfirvofandi hættu“ árið 2018. Árið 2019, er ástand rjúpnastofnsins orðið miklu verra. Sluppu hér einhverjir, sem að veiðiákvörðun standa, út af Kleppi?

Fáar verur á Íslandi hafa verið ofsóttar og hrelldar, meiddar og níddar til dauða í jafnmiklum mæli og rjúpan. Það er mál til komið, að fuglinn fagri og friðsæli, sem er lykiltegund í íslenzku vistkerfi og prýðir það og skreytir, fái grið og frið. Ég og þúsundir dýra- og rjúpnavina setjum traust okkar á Guðmund Inga – sem hefur tekið vel á loftslagsmálum, en lítið gert í dýravernd til þessa – með það, að hann taki nú nauðsynleg skref blessaðri rjúpunni til verndar og velferðar.




Skoðun

Sjá meira


×