Viðskipti innlent

Breytingar á yfirstjórn CRI

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ingólfur Guðmundsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir.
Ingólfur Guðmundsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir. CRI
Ingólfur Guðmundsson hefur verið ráðinn forstjóri fyrirtækisins Carbon Recycling International, sem sérhæfir sig í búnaði til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti og vistvæna efnavöru úr kolefni og vetni. Þá hefur Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir verið ráðin aðstoðarforstjóri fyrirtækisins.

Greint er frá breytingunum í yfirstjórn CRI í tilkynningu frá félaginu. Þar er þess getið að Ingólfur hafi setið í stjórn félagsins frá því í fyrra en tekið við forstjórastöðunni af Sindra Sindrasyni í júní síðastliðnum. Margrét hóf störf við CRI árið 2015 og hefur setið í framkvæmdastjórn fyrirtækisins frá árinu 2017.

Í tilkynningunni er ferill þeirra beggja jafnframt rakinn. Ingólfur er rekstrarhagfræðingur og löggiltur verðbréfamiðlari, auk þess sem hann var einn af stofnendum iKorts og framkvæmdastjóri þess um tíma. Ingólfur einnig setið í stjórnum fyrirtækja og sjóða og situr nú meðal annars í stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna og stjórn Eyris Invest.

Margrét er iðnaðarverkfræðingur og lauk jafnframt M.Sc. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. prófi í orkukerfum og orkustjórnun frá School of Renewable Energy Science. Áður en hún hóf störf hjá CRI starfaði hún hjá Landsbankanum og Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns (nú Mannvit) með áherslu á stjórnun, fjármögnun og orkutengd verkefni. Hún hefur einnig setið í ýmsum ráðum og stjórnum í atvinnulífinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×