Viðskipti innlent

Þrjú félög sameinast undir merkjum Senu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sena Live sá um skipulagningu tónleika Ed Sheeran á Laugardalsvelli í ágúst. Sena Live hefur nú verið fært undir vörumerkið Senu.
Sena Live sá um skipulagningu tónleika Ed Sheeran á Laugardalsvelli í ágúst. Sena Live hefur nú verið fært undir vörumerkið Senu. Vísir/Vilhelm
Fyrirtækin Sena, Sena Live og CP Reykjavík hafa sameinast í eitt félag undir nafninu Sena. Áætluð velta sameinaðs félags árið 2019 er um 4.7 milljarðar króna, fastir starfsmenn eru 28 talsins, og um 110 starfsmenn eru í hlutastörfum. Félagið Sena er eftir sameininguna í eigu Jóns Diðriks Jónssonar og lykilstjórnenda.

Frá þessu greina aðstandendur Senu í tilkynningu til fjölmiðla.

Sena rekur í dag kvikmyndahúsin Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri, er umboðs- og dreifingaraðilar Playstation, Sony Pictures og 20th Century Fox Entertainment ásamt því að vinna með íslenskum kvikmyndaframleiðendum.

Sena Live hefur einbeitt sér að tónleika- og viðburðahaldi. Félagið hafði t.a.m. veg og vanda af komu Ed Sheeran, Justin Timberlake og Justin Bieber til landsins.

Félagið CP Reykjavík hefur sérhæft sig í að fyrirtækjaviðburðum, hvataferðum og ráðstefnum. Má þar nefna skipulagningu ferða kaupstefnunnar Vestnorden og ráðstefnu norrænna ljósmæðra.

Eftir sameininguna skiptist starfsemi Senu í tvö grunnsvið: viðburði og afþreyingu. „Undir viðburðasviðið heyra annars vegar lifandi sýningar, svo sem tónleikar, uppistönd og Iceland Airwaves og hins vegar fyrirtækjaviðburðir, svo sem ráðstefnur, hvataferðir og árshátíðir. Undir afþreyingarsviðið heyrir dreifing kvikmynda, Playstation og rekstur kvikmyndahúsa,“ segir í útskýringu Senu.

Framkvæmdastjóri viðburðasviðs er Ísleifur B. Þórhallsson og framkvæmdastjóri afþreyingarsviðs er Konstantín Mikaelsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×