Erlent

Tala látinna í mótmælum í Írak nálgast eitt hundrað

Andri Eysteinsson skrifar
Frá mótmælum gegn írösku ríkisstjórninn í Baghdad í vikunni.
Frá mótmælum gegn írösku ríkisstjórninn í Baghdad í vikunni. Getty/Anadolu
Undanfarna fimm daga hafa Írakar víða safnast saman á götum úti og mótmælt ríkisstjórn forsætisráðherrans Adil Abdul-Mahdi. Íraskar mannréttindastofnanir segja að um eitt hundrað manns hafi látist í átökum vegna mótmælanna. BBC greinir frá.

Adil Abdul-Mahdi og ríkisstjórn hans tók við stjórnartaumunum í Írak fyrir tæpu ári síðan, 25. október 2018, stjórnmálaspekingar segja mótmælin sem nú geisa vera fyrstu alvöru ógnina við ríkisstjórn Mahdi. Talsmenn mótmælenda segja boðskap þeirra vera barátta gegn atvinnuleysi, lélegri þjónustu við landsmenn og gegn spillingu.

Upptök mótmælanna má rekja til ósættis í suðurhluta landsins sem stigmagnaðist og dreifðist um landið eins og eldur í sinu. Atvinnuleysi í Írak mælist um 8% en sé eingöngu litið til ungs fólks sé atvinnuleysi tvöfalt meira.

Það eru því helst ungir karlmenn sem hafa verið í hópi mótmælenda, öryggissveitir hafa verið ræstar til þess að hafa hemil á mótmælunum og hafa sveitirnar verið uppvísar að því að skjóta á hópa mótmælenda.

Sjá einnig: 46 dánir og hundruð særðir í mótmælum í Írak

Síðasta fimmtudag ávarpaði forsætisráðherrann Abdul-Mahdi írösku þjóðina í sjónvarpi og sagðist hann þá hafa skilning á þeirri gremju sem þjóðin sýndi stjórnvöldum, þó enga töfralausn væri að finna á vandamálum Írak hét hann þó endurbótum.

Til þess að reyna að koma á ró í landinu var aðgangur að internetinu heftur og var sett á útgöngubann ,útgöngubanninu var aflétt í dag og hófust fámennari mótmæli.

Samkvæmt mannréttindastofnunum hafa eins og áður segir, um 100 manns látist í mótmælunum og um 3000 hafa slasast. Þá hafa 540 mótmælendur verið handteknir og eru nærri 200 þeirra enn í haldi yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×