Erlent

46 dánir og hundruð særðir í mótmælum í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur hafa hingað til verið að mestu ungir menn og hafa öryggissveitir skotið á hópa mótmælenda, sem hafa í einhverjum tilfellum svarað skothríðinni.
Mótmælendur hafa hingað til verið að mestu ungir menn og hafa öryggissveitir skotið á hópa mótmælenda, sem hafa í einhverjum tilfellum svarað skothríðinni. AP/Hadi Mizban
Minnst 46 eru dánir eftir mótmæli síðustu daga í Írak. Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í landinu síðustu daga og hefur komið til skotbardaga á milli öryggissveita og mótmælenda. Þrátt fyrir að mótmælunum sé ekki stýrt af neinum aðilum eða samtökum fóru þau eins og eldur um sinu um Írak en mótmælin hafa að mestu snúið að spillingu og dræmum lífsgæðum.

Mótmælendur hafa hingað til verið að mestu ungir menn og hafa öryggissveitir skotið á hópa mótmælenda, sem hafa í einhverjum tilfellum svarað skothríðinni, samkvæmt Reuters.



Valdamesti klerkur landsins, Ali al-Sistani, segir sökina vegna ofbeldisins og dauðsfalla vera hjá stjórnmálamönnum og þinginu. Kröfum fólksins varðandi spillingu hafi ekki verið svarað og engin þörf verk hafi verið unnin.

Adel Abdul Mahdi, forsætisráðherra Írak, ávarpaði þjóðina í sjónvarpi í gær og sagðist hann hafa skilning á þeirri gremju sem þjóðin sýndi stjórnvöldum. Hins vegar væri engin töfralausn á vandamálum Írak. Mahdi hét þó endurbótum.

Útgöngubann er nú í gildi í mörgum borgum Írak og hefur dagurinn í dag verið rólegri en undanfarnir dagar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×