Erlent

Tugir þúsunda mót­­mæltu rýmkun laga um tækni­­frjóvganir í París

Atli Ísleifsson skrifar
Frá mótmælunum í París í dag.
Frá mótmælunum í París í dag. AP
Tugir þúsunda söfnuðust saman á götum frönsku höfuðborgarinnar í dag til að mótmæla lagafrumvarpi sem kveður á um að einhleypar konur og samkynja pör kvenna geti gengist undir tæknifrjóvganir.

Verði frumvarpið að lögum verður um mestu umbætur á félagslegri löggjöf Frakklands frá lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra árið 2013. Glasafrjóvganir eru sem stendur einungis bundnar við gagnkynhneigð pör.

Neðri deild franska þingsins hefur nú þegar samþykkt frumvarpið og kemur það nú til kasta öldungadeildar þingsins. Eru það helst íhaldsmenn og trúaði sem eru á móti frumvarpinu og segir í frétt BBC að margir þeir sem mótmæltu í dag hafi einnig mótmælt lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra á sínum tíma.

Fjöldi þeirra sem mótmæltu í dag er mjög á reiki, en skipuleggjendur segja um 600 þúsund manns hafa safnast saman, en lögregla segir fjöldann þó nær 42 þúsund. Stuðningsmenn frumvarpsins söfnuðust einnig saman í smærri hópum á götum Parísar á sama tíma.

Konur yngri en 43 ára

Samkvæmt frumvarpinu mættu allar konur yngri en 43 ára gangast undir glasafrjóvgun, burtséð frá kynhneigð eða hjúskaparstöðu.

Skoðanakannanir benda til þess að tveir af hverjum þremur Frökkum séu samþykkir lagabreytingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×