Erlent

Erdogan staðfestir að innrásin sé hafin

Atli Ísleifsson skrifar
Tyrkneski herinn hefur síðustu daga safnað liðsafla við sýrlensku landamærin.
Tyrkneski herinn hefur síðustu daga safnað liðsafla við sýrlensku landamærin. Getty
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur staðfest að innrás tyrkneska hersins í Sýrland sé hafin. Hafa sést myndir af loftárásum á borgina Ras al-ayn nærri landamærunum og fréttir borist af því að skotmörkin séu meðal annars herstöðvar Kúrda og vopnageymslur.

Erdogan staðfesti á Twitter-síðu sinni að aðgerðir væru hafnar. Segir hann aðgerðirnar, sem kallast Vor friðar, beinast gegn hryðjuverkamönnum Kúrda og liðsmönnum ISIS í norðurhluta Sýrlands. Markmiðið sé að koma í veg fyrir griðasvæði hryðjuverkamanna nærri suðurlandamærum Tyrklands og koma á friði á svæðinu.

Sveitir Bandaríkjahers hörfa

Innrás Tyrkja kemur í kjölfar ákvörðunar Donald Trump Bandaríkjaforseta að kalla hersveitir Bandaríkjanna til baka frá norðurhluta Sýrlands. Talsmenn Kúrda hafa hótað „allsherjarstríði“ gangi áætlun Tyrklandshers eftir og hvatt fólk til að grípa til vopna.

Tyrkir segjast vilja skapa „öruggt svæði“ við landamærin, laust við uppreisnarmenn Kúrda, sem mun þá hýsa á fjórða milljón sýrlenskra flóttamanna sem hafast nú við í Tyrklandi.



Trump hefur í hótunum

Svæðið sem Tyrkir ráðast nú inn í er að finna austur af Efrat-fljóti. SDF-sveitir Kúrda hafa ráðið þar ríkjum að undanförnu með stuðningi Bandaríkjahers, en SDF tók virkan þátt í baráttunni gegn liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna ISIS. Tyrkir líta hins vegar þannig á að SDF-sveitirnar tengist samtökum sem Tyrkir skilgreina sem hryðjuverkasamtök.

Trump hefur varið ákvörðun sína að afturkalla hersveitir og segir að aðrir aðilar verði einnig að bera ábyrgð í heimshlutanum. Þó hefur hann hótað því að eyðileggja og tortíma tyrkneskum efnahag, geri tyrknesk stjórnvöld eitthvað sem hann telji vera yfir strikið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×