Innlent

Vill að ríkisstjórnin fordæmi innrás Tyrkja í Sýrland

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, kallaði eftir því á Alþingi í dag að íslenska ríkisstjórnin fordæmi innrás Tyrkja á Kúrdahéruð í Sýrlandi. „Þessar bandalagsþjóðir okkar í NATO eru að koma í veg fyrir aðgang hryðjuverkamanna að suðurhluta landamæra Tyrklands og í framhaldinu heldur Tyrklands forseti fram þeirri firru að með innrásinni munu Tyrkir varðveita landfræðilegt fullveldi Sýrlands og frelsa íbúa landsins frá hryðjuverkamönnum,“ sagði Þórhildur Sunna undir liðnum um störf þingsins í dag.

Sjá einnig: Kúrdar segja Tyrki ráðast gegn óbreyttum borgurum

Sagði hún innrásina vera glæp gegn friði sem gangi gegn grundvallarlögum þjóðaréttar. „Ég kalla á það að ríkisstjórnin, sér í lagi hæstvirtur forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir og hæstvirtur utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, lýsi því yfir hið fyrsta,“ sagði Þórhildur Sunna. 

Vísaði hún í því sambandi til þess að í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og í dómum Alþjóðadómstólsins í Haag sé það túlkað sem glæpur ef að fullvalda ríki ræðst inn í annað fullvalda ríki án aðkomu eða samþykkis öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nema ef um sjálfsvörn sé að ræða. „Sú vörn á augljóslega ekki við í þessu tilfelli. Ég kalla eftir því að hæstvirtur ráðherra kalli þessa innrás réttu nafni. Það er að segja glæp gegn friði, ólögmæta innrás,“ sagði Þórhildur Sunna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×