Erlent

Segir Trump hafa hagað sér eins og mafíósi

Samúel Karl Ólason skrifar
Adam Schiff, þingmaður Demókrataflokksins og formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Adam Schiff, þingmaður Demókrataflokksins og formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. AP/J. Scott Applewhite
Adam Schiff, þingmaður Demókrataflokksins, segir gróft upprit Hvíta hússins af samtali Donald Trump, forseta, og Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, sýna Trump hafa hagað sér eins og mafíósi. Á blaðamannafundi í dag sagði Schiff ljóst að Zelensky hafi gert sér grein fyrir stöðunni sem hann var í og hverju Trump ætlaðist af honum.

„Þetta rit endurspeglar klassíska „mafíu-kúgun“ erlends leiðtoga,“ sagði Schiff, sem er formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Hann sagði ljóst að Zelensky sárvantaði hernaðarstuðning Bandaríkjanna gegn hernaðaraðgerðum Rússa í austurhluta Úkraínu.

Schiff bendir á að samkvæmt ritinu bað Trump Zelensky um greiða, eftir að úkraínski forsetinn tjáði þörf sína á herbúnaði eins og and-skriðdrekavopnum.

„Forsetinn tilkynnti starfsbróður sínum að Bandaríkin hefðu gert mikið fyrir Úkraínu, hefðu gert mjög mikið fyrir Úkraínu. Meira en Evrópumenn eða nokkrir aðrir hefðu gert fyrir Úkraínu en það væri ekki mikil gagnkvæmni,“ sagði Schiff.

„Svona talar mafíósi. Hvað hefur þú gert fyrir okkur? Við höfum gert mikið fyrir þig en það er ekki mikil gagnkvæmni. Ég vil biðja þig um greiða,“ Sagði Schiff. „Hver er greiðinn? Hann er auðvitað að rannsaka pólitíska andstæðinga Trump. Að rannsaka Biden-feðgana.“

Sjá einnig: Trump bað Zelensky um að rannsaka Biden



Schiff sagði ljóst að Zelensky hafi áttað sig á því við hverju Trump bjóst við af honum og hafi reynt að koma sér undan því.

„Það sem bætir öðru lagi siðspillingar er að forsetinn vísar til Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og einkalögmanns síns, sem sendiboða sína.“

Seinna á blaðamannafundinum var Schiff spurður út í yfirlýsingu Hvíta hússins um að uppritið sýni að hvorugur forsetinn hafi minnst á hundruð milljóna hernaðaraðstoð sem Trump hafði skömmu áður komið í veg fyrir að bærist til Úkraínu.

Schiff vísar aftur til þess að Trump hafi beðið Zelensky um greiðan eftir að sá úkraínski nefndi þörf Úkraínu á hernaðaraðstoð.

„Það voru aðeins ein skilaboð sem forseti Úkraínu fékk frá þessum fundi. Það var: „Þetta er það sem ég þarf. Ég veit hvað þú þarft.“ Eins og hver annar mafíósi, þá þurfti forsetinn [Trump] ekki að segja: „Þetta er flott land sem þú átt. Það væri skömm ef eitthvað kæmi fyrir það.“ Það var ljóst frá samtali þeirra.“

„Það þarf ekki endilega greiða fyrir greiða til að svíkja þjóð þína eða embættiseið þinn. Jafnvel þó margir lesi þetta þannig,“ sagði Schiff og bætti við að Trump hefði gert það augljóst til hvers hann ætlaðist og sendimenn hans hefðu gert það sömuleiðis.

„Úkraínumenn vissu hvað þeir þurftu að gera til að fá hernaðaraðstoð og það var að hjálpa forseta Bandaríkjanna að brjóta embættiseið sinn.“


Tengdar fréttir

Trump bregst ókvæða við formlegri rannsókn um embættisbrot

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, virðist vera allt annað en ánægður með yfirlýsingu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, um að fulltrúadeildin muni hefja formlega rannsókn á því hvort að Trump hafi framið embættisbrot í starfi.

Trump bað Zelensky um að rannsaka Biden

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, bað Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, um að starfa með William Barr, dómsmálaráðherra, og Rudy Giuliani, einkalögmanni sínum, til að rannsaka Joe Biden, pólitískan andstæðing sinn, og son hans.

Þingið hefur formlega rannsókn á því hvort Trump hafi framið embættisbrot

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og leiðtogi demókrata í neðri deild þingsins, tilkynnti rétt í þessu að skipuð verði sérstök nefnd sem rannsaka eigi hvort Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi framið embættisbrot með því að hafa þrýst á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitískan andstæðing hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×