Viðskipti innlent

Tólf sagt upp hjá Valitor

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rekstur Valitor hefur gengið illa á undanförnum misserum.
Rekstur Valitor hefur gengið illa á undanförnum misserum. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Færsluhirðirinn Valitor hefur sagt upp 12 starfsmönnum. Valitor er dótturfélag Arion banka en uppsagnirnar tólf eru ekki hluti þeirra 100 uppsagna hjá bankanum, sem greint var frá í morgun.

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, staðfestir uppsagnirnar í samtali við Vísi og segir að til þeirra hafi þurft að grípa vegna breytts samkeppnisumhverfis og viðvarandi tapreksturs.

Rekstur Valitor hefur gengið brösuglega síðustu misseri, þannig tapaði fyrirtækið næstum 2,8 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs og 1,9 milljörðum árið áður. Þá féllst Valitor á að greiða Datacell og Sunshine Press Productions 1,2 milljarða króna í júlí, skaðabætur fyrir að slíta samningi um greiðslugátt fyrir söfnunarfé til WikiLeaks sumarið 2011.

Viðar segir að því hafi verið ákveðið að segja upp starfsmönnunum tólf. Þar að auki séu að eiga sér stað miklar breytingar á samkeppnisumhverfi færsluhirða, rétt eins og banka. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, tók í svipaðan streng í yfirlýsingu sinni í morgun. Bæði sé að eiga sér mikil framþróun í hvers kyns bankastarfsemi, sem þarfnast minna starfsmannahalds, auk þess sem regluverksbreytingar og skattahækkanir hafi leitt af sér mikinn viðbótarkostnað.


Tengdar fréttir

Arion segir upp 100 manns

Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans sem tekur gildi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×