Viðskipti innlent

Starfs­manna­gleði morgun­dagsins hjá Arion banka blásin af

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Uppsagnirnar í Arion banka í morgun voru starfsfólki mikið áfall.
Uppsagnirnar í Arion banka í morgun voru starfsfólki mikið áfall. Vísir/Vilhelm
Októberfest, starfsmannagleði hjá Arion banka sem átti að halda á morgun, hefur verið blásin af eftir að 102 starfsmönnum bankans var sagt upp störfum í dag. Einn skipuleggjenda veislunnar segir að strax hafi orðið ljóst að starfsfólk væri ekki í skapi fyrir hátíðahöld.

Uppsagnirnar í Arion banka í morgun voru starfsfólki mikið áfall og umfangsmeiri en það bjóst við. Starfsfólk sem fréttastofa náði tali af í dag lýsti ástandinu í höfuðstöðvum bankans sem skelfilegu en meirihluti þeirra hundrað starfsmanna sem misstu vinnuna starfa þar.

Sjá einnig: Hundrað þrjátíu og fjórir misstu vinnuna í fjármálageiranum í dag

Sigurgeir Sigurpálsson, meðlimur í skemmtinefnd Skjaldar, starfsmannafélags Arion banka, staðfestir í samtali við Vísi að eftir að fregnir bárust af uppsögnunum hefði verið ákveðið að fresta árlegri Októberfest bankans sem halda átti á morgun. Ekkert vit hafi verið í því að halda veislunni til streitu í því andrúmslofti sem nú ríkir á vinnustaðnum.

„Það byrjaði fljótlega umræða um að það væri Októberfest á morgun og maður heyrði strax raddir um að fólk væri ekki í stuði fyrir þetta.“

Sigurgeir segir að viðburðurinn hafi verið skipulagður langt fram í tímann og vitanlega ekki fyrirséð að uppsagnirnar myndi bera upp daginn áður. Þannig hafi verið búið að panta veitingar og bóka skemmtikrafta en þegar uppsagnirnar hófust var nær strax ráðist í afbókanir. Starfsmenn voru um leið látnir vita að ekkert yrði af veislunni í ljósi uppsagnanna.

Þá vonast Sigurgeir til að starfsmenn geti glaðst saman seinna í vetur, undir öðrum formerkjum en Októberfest, þegar þeir hafa fengið tíma til að jafna sig.


Tengdar fréttir

Hundrað þrjátíu og fjórir misstu vinnuna í fjármálageiranum í dag

Andrúmsloftið var tilfinningaþrungið í höfuðstöðvum Arion banka í dag þar sem um 100 manns misstu vinnuna. Um er að ræða stærstu hópuppsögn fjármálafyrirtækis frá hruni en formaður stéttarfélags fjármálastarfsmanna skoðar nú hvort vísa beri aðgerðunum til Félagsdóms vegna samráðsleysis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×