Viðskipti innlent

DV tapaði 240 milljónum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Framkvæmdastjóri útgáfufélagsins segir rekstrarumhverfið erfitt.
Framkvæmdastjóri útgáfufélagsins segir rekstrarumhverfið erfitt. VISIR/VILHELM
Útgefandi DV og vefmiðla þess, félagið Frjáls fjölmiðlun ehf., tapaði næstum 240 milljónum króna á síðasta ári. DV greinir sjálft frá tapinu og bætir við að EBITDA afkoma, fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, hafi verið neikvæð um 214 milljónir króna og rekstrartekjur numið 380 milljónum.

Karl Garðarson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, setur tap félagsins í samhengi við erfiðan rekstur annarra einkarekinna miðla. Má í því samhengi nefna að útgáfufélag Morgunblaðsins, Árvakur, tapaði um 415 milljónum í fyrra.

Þessar afkomutölur bendi til að staða einkarekinna miðla sé „mjög alvarleg,“ að mati Karls. Því þurfi að bregðast skjótt við til að vernda lýðræðislega umræðu í landinu - „og ekki hjálpar það forskot sem RÚV er með í formi auglýsinga og styrkja úr ríkissjóði,“ eins og Karl kemst að orði.

Ætla má að þetta sé innlegg framkvæmdastjórans í yfirstandandi umræðu um þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur sagst vilja endurskoða. Samkvæmt ársreikningi Ríkisútvarpsins fyrir árið 2018 fékk stofnunin 4,3 milljarða króna í formi útvarpsgjalds og þá skilaði samkeppnisrekstur þess 2,3 milljörðum.

Lilja Alfreðsdóttir hefur þó tekið fram að tekjumissir Ríkisútvarpsins vegna auglýsinga verði bættur upp með öðrum hætti, rétt eins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem vill gera það með hækkun útvarpsgjalds. Aukinheldur voru 400 milljónir króna í fjárlagafrumvarpi næsta árs eyrnamerktar stuðningi við einarekna fjölmiðla.

Hvað rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar varðar segist Karl þó hafa trú á að aðhaldsaðgerðir sem Frjáls fjölmiðlun réðst í, í lok síðasta árs, muni skila sér í heilbrigðari rekstri þegar fram líða stundir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×