Viðskipti erlent

H&M setur þrýsting á leigusalana

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
H&M rekur verslun á Hafnartorgi.
H&M rekur verslun á Hafnartorgi. vísir/vilhelm
Sænsku verslanakeðjunni H&M og leigusölum hennar hefur lent saman vegna krafna keðjunnar um ákvæði í leigusamningum um að leigusalarnir beri kostnaðinn af auknum vöruskilum. Slík ákvæði tíðkast þó ekki enn hér á landi.

Breska dagblaðið The Sunday Times greinir frá og byggir umfjöllun sína á frásögnum heimildarmanna. Samkvæmt heimildum blaðsins fer H&M ekki einungis fram á við leigusala að leigugreiðslur séu tengdar veltu heldur einnig að skil á vörum til verslana keðjunnar komi til lækkunar á veltunni og þar með leigugreiðslum. Þannig lækki virði atvinnuhúsnæðisins.

Heimildir The Sunday Times herma jafnframt að H&M bjóði leigusölum eins konar heildarsamninga þar sem verslanakeðjan leggur til veltutengdar leigugreiðslur og felur leigusölunum að skipta þeim milli leigu, fasteignagjalda og þjónustugjalda. Leigusalarnir þurfi því að sætta sig við lágar leigutekjur til þess að standa straum af kostnaði vegna fasteignaskatta og þjónustu.

Tilraunir H&M til að fá leigusala til að bera kostnaðinn af vöruskilum hafa fengið slæmar viðtökur hjá leigusölunum sem sumir hafa hafnað tillögum verslanakeðjunnar. „Sumir leigusalar standa uppi í hárinu á þeim en fulltrúar H&M benda þá bara á sænska móðurfélagið,“ sagði einn heimildarmanna breska blaðsins.

Í umfjölluninni segir að veltutengdir leigusamningar séu nokkuð nýlegt fyrirbæri í Bretlandi og að þeir séu merki um að völdin séu að færast frá leigusölunum til smásölurisanna. Stórar verslanakeðjur á borð við Top Shop hafa nýtt tækifærið í greiðsluþrotameðferð til að endursemja um leigukjör. Stöndugri keðjur á borð við Next heimta síðan sambærileg kjör.

H&M rekur þrjár verslanir hér á landi; eina í Kringlunni, aðra í Smáralind og þá þriðju á Hafnartorgi. Þá var nýlega greint frá því að H&M myndi opna verslun á Glerártorgi á Akureyri haustið 2020. Fasteignafélagið Reginn á Smáratorg og verslunarhúsnæðið á Hafnartorgi en Reitir eiga Kringluna. Heimildir Markaðarins innan fasteignafélaganna herma að engin ákvæði um vöruskil séu í leigusamningunum á Íslandi. Þá hafi H&M ekki þrýst sérstaklega á breytingar á leigusamningum á síðustu mánuðum.

H&M á Íslandi hagnaðist um 105 milljónir króna á síðasta ári sem var fyrsta heila rekstrarár fyrirtækisins frá því að það hóf starfsemi hér á landi árið 2017. Verslanakeðjan seldi fyrir tæplega 2,4 milljarða króna á árinu en rekstrarkostnaður nam 2.258 milljónum króna. Í ársreikningi H&M á Íslandi kemur fram að árlegar leigugreiðslur félagsins nemi um 144 milljónum króna.

Kostnaðurinn við vöruskil hefur hækkað. Árið 2016 var metið að vöruskil kostuðu smásölufyrirtæki 60 milljarða punda, jafnvirði 9.300 milljarða króna, á hverju ári en síðan þá hefur verið verulegur vöxtur í netverslun. Sérfræðingar á smásölumarkaði telja að hver flík sem er skilað kosti verslanir að jafnaði 12 pund, jafnvirði 1.900 króna. Oft þurfi að hreinsa flíkurnar, endurpakka þeim og flytja aftur í verslanir.

Leiga á Hafnartorgi töluvert undir markaðsleigu

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, sagði í ítarlegu viðtali í Markaðinum í vor að leiguverð á Hafnartorgi, þar sem H&M er til húsa, væri um þær mundir töluvert undir markaðsleigu.

„Samningarnir eru settir þannig saman að það er grunnverð og stefnt er á að eftir nokkur ár verði leigan komin í ákveðna fjárhæð. Leigutakarnir þurfa að fá tíma til að byggja upp verslanirnar enda er svæðið ekki fullmótað. Þess vegna er leiguverði stillt í hóf og yfirleitt tengt veltu en þó mismikið. Til að byrja með er fermetraverðið örugglega helmingur á við góð bil á Laugaveginum,“ sagði Helgi sem tók fram að erlendis tíðkaðist það að stórar verslanakeðjur semdu um að leiguverð tengdist veltu.

„Þar með sameinast leigusali og verslunarrekandi um áhættuna sem tekin er. Ef það gengur illa lækkar leigan, ef það gengur vel þá hækkar hún,“ sagði Helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×